Beint í efni

Ný ostaframleiðslulína á Akureyri

31.08.2012

Stjórn Mjólkursamsölunnar samþykkti samhljóða á fundi sínum í fyrradag, 29. ágúst, að ganga að tilboði  danska tækjaframleiðandan APV um smíði á nýrri ostaframleiðslulínu, tönkum, pressum, dælubúnaði og fullkomnu tölvustýrikerfi fyrir mjólkurbúið á Akureyri.  Áður hafði verið gengið frá kaupum á tækjum til forvinnslu mjólkur fyrir ostaframleiðsluna.  Endurnýjun ostaframleiðslunnar á Akureyri er stærsta einstaka fjárfestingin í endurnýjunaráætlun Mjólkursamsölunnar og sennilega ein af stærstu fjárfestingum MS frá upphafi 2007.  Í heildina kosta tækin, forvinnsla, ostatankar og pressubúnaður, í þessari endurnýjun ostaframleiðslu á Akureyri um 600 milljónir króna.  Gert er ráð fyrir að nýja framleiðslulínan verði tekin þar í gagnið fyrir mitt næsta ár.

 

Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar sagði í dag að þessi samþykkt markaði kaflaskil. Félagið hefði nú sett í gang endurnýjun og endurskipulagningu allar starfsemi í þremur stærstu vinnslustöðvum fyrirtækisins. „Við fáum fullkomnustu tæki sem völ er á til ostavinnslunnar á Akureyri. Það var gaman að geta tekið þá ákvörðun á 150 ára afmælisdegi bæjarins. Hér verður gríðaröflug ostaframleiðsla sem getur þjónað innanlandsmarkaði og jafnframt tekist á við útflutning.“

Jafnframt endurnýjun og uppbyggingu á Akureyri er Mjólkursamsalan að undirbúa að færa mjólkurpökkun á suðurhluta landsins frá Reykjavík til Selfoss og kaupir þangað einnig fullkomin tæki til framleiðslu og pökkunar á sýrðum vörum. Í Reykjavík leggur félagið af mjólkurvinnslu en er að kaupa fullkominn búnað til að skera og pakka osta. Þessar breytingar gerast allar á nokkrum mánuðum og krefjast mikillar undirbúningsvinnu og skipulags af hálfu stjórnenda og starfsmanna. Niðurstaða þessara mikilu breytinga verður hagkvæmari framleiðsla og betri vinnuaðstæður fyrir starfsfólk, ýmsir möguleikar á vörunýjungum og handhægari umbúðir fyrir neytendur.

 

Á myndinni sem fylgir sést sams konar tækjabúnaður frá APV og verður settur upp í mjólkurbúinu á Akureyri á fyrri hluta næsta árs.

 

Fréttatilkynning frá Mjólkursamsölunni