Beint í efni

Ný og endurbætt spenaeinkunn

27.06.2022

Í nýjasta tölublaði Bændablaðsins greina Guðmundur Jóhannesson og Þórdís Þórarinsdóttur, ráðunautar hjá RML frá því að ný og endurbætt spenaeinkunn hafi nú verið sett inn í kynbótamat mjólkurkúa. Vonast er til þess að með þessari breytingu sé hægt að snúa við þeirri þróun að minnka spenana um of, þar sem markmiðið er að sjálfsögðu að spenar kúnna séu hæfilega langir/stuttir,  hæfilega þykkir/grannir og vel settir. Ný spenaeinkunn lýsir þessu markmiði betur og ætti því að gagnast vel í vali nauta.

Bændur hafa mikið rætt um spenaeinkunn undanfarið og á búgreinaþingi Nautgripabænda í mars 2022 var samþykkt að beina því til fagráðs í nautgriparækt að stefna að því að spenar á mjólkurkúm verði hvorki grennri né styttri en orðið er. Fagráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 7. apríl og ákveðið var að taka nýja spenaeinkunn í notkun þar sem kjörgildi á spenalengd við útreikninga yrði 5,5 við næstu keyrslu kynbótamats. Það hefur nú verið gert og fara Guðmundur og Þórdís yfir þær breytingar sem ný spenaeinkunn leiðir af sér í grein sinni sem má lesa í heild sinni hér að neðan.

Ný og endurbætt spenaeinkunn

Kynbótamat er reiknað fyrir spenalengd, spenaþykkt og spenastöðu og eru einkunnir á línulegum skala (1-9) úr kúaskoðunum notaðar til grundvallar. Inn í heildarspenaeinkunn gildir kynbótamat fyrir spenalengd 30%, spenaþykkt 30% og spenastöðu 40%. Fram til þessa hafa því gripir sem gefa fyrirheit um stutta, granna og þétta spena fengið hæstu heildareinkunn fyrir spena (einkunn fyrir spenaþykkt er snúið við í heildareinkunn og því er valið fyrir grönnum spenum).

Nýtt kynbótamat var reiknað í júní og við birtingu þess var í fyrsta skipti tekin í notkun ný heildarspenaeinkunn sem þróuð var af Þórdísi Þórarinsdóttur RML, Agli Gautasyni doktorsnema og Jóni Hjalta Eiríkssyni doktorsnema. Ný einkunn miðast við að kjörgildi spenalengdar sé 5,5, kjörgildi spenaþykktar sé 5 og kjörgildi spenastöðu sé 5. Gripir sem sýna sem minnst frávik frá þessum kjörgildum í kynbótamati fá hæstu einkunnirnar í nýrri heildarspenaeinkunn og gripir sem sýna frávik frá kjörgildum fá lægri einkunnir.

Þetta verður kannski best skýrt með dæmum.

Jarfi 16016 er gott dæmi. Þar er á ferðinni naut sem gefur hæfilega spena hvað lengd varðar, vel setta en granna. Í síðustu prentuðu nautaskrá var hann með 102 fyrir spenalengd, 43 fyrir spenaþykkt og 130 fyrir spenastöðu. Samsett spenaeinkunn reiknaðist þá 130 og má glöggt sjá á því að eldri spenaeinkunn hampaði stuttum og grönnum spenum. Í kynbótamatinu sem keyrt var núna í júní með nýrri spenaeinkunn er Jarfi með 101 fyrir spenalengd, 45 fyrir spenaþykkt og 133 fyrir spenastöðu. Ný spenaeinkunn reiknast 97. Þarna má sjá að Jarfi nýtur hæfilegra spena að lengd og góðrar spenastöðu en er nú refsað fyrir granna spena.

Annað dæmi er Ýmir 13051 sem er nú með hæstu spenaeinkunnina. Hann var áður með 109 fyrir spenalengd, 97 fyrir spenaþykkt og 137 fyrir spenastöðu. Spenaeinkunn reiknaðist þá 118. Í matinu nú er Ýmir 13051 með 110 fyrir spenalengd, 101 fyrir spenaþykkt og 132 fyrir spenastöðu, m.ö.o. hæfilega langa og þykka spena og vel setta. Ný spenaeinkunn reiknast nú 138 sem sýnir að nýja einkunnin hampar þeim nautum sem gefa hæfilega spena betur en fyrri einkunn gerði.

Þetta má einnig sjá mjög vel hjá Bamba 08049 sem var með 121 fyrir spenalengd, 76 fyrir spenaþykkt og 104 fyrir spenastöðu, sem sagt frekar stutta og granna spena. Spenaeinkunn reiknaðist þá 115. Bambi er nú með 121 fyrir spenalengd, 76 fyrir spenaþykkt og 104 fyrir spenastöðu, það er hann hefur ekkert breyst í einkunnum enda dætrafjöldi orðinn slíkur að ekki var von á því. Ný spenaeinkunn reiknast hins vegar nú 97 og sýnir vel áhrif þess að refsa fyrir frávik frá kjörgildum. Dætur Bamba eru, eins og áður sagði, með frekar stutta og granna spena og nýja einkunnin tekur betur tillit til þess.  

Það er von okkar hjá RML og fagráðs í nautgriparækt að með breytingum á spenaeinkunn náum við að snúa við þeirri þróun að minnka spenana um of. Markmiðið er að sjálfsögðu að spenar kúnna séu hæfilega langir/stuttir og hæfilega þykkir/grannir og vel settir. Nýja spenaeinkunnin lýsir því markmiði betur og ætti því að gagnast okkur vel í vali nautanna.