Beint í efni

Ný norsk aðferð stóreykur geymsluþol kjöts

01.07.2016

Norska afurðafélagið Nortura, sem er sérhæft í slátrun og kjötvinnslu, gefur árlega verðlaun fyrir nýsköpun á sviði kjötvinnslu og í liðinni viku var sigurvegari ársins 2016 heiðraður. Að þessu sinni rann þessi heiður til Ane-Guro Danielsen sem starfar í kjötþróunardeild hjá Nortura. Hún hefur þróað vinnsluaðferð sem Nortura segir að geri það að verkum að unnt sé að stórauka geymsluþol kjötvara með án þess að nota einhverskonar aukaefni.

 

Lykilinn að þessari aðferð gefur Nortura ekki upp en þó má lesa á milli línanna að aðferðin byggir m.a. á nýrri tækni frá Nýja-Sjálandi auk þess sem við framleiðsluna er lögð enn meiri áhersla á gæði pökkunar og vinnslu kjötsins. Segir í tilkynningu Nortura að fyrirtækið muni nú geta lengt verulega sölu á fersku kjöti og boðið t.d. ferskt lambakjöt um jólin en hingað til hefur einungis verið mögulegt að bjóða upp á frosið lambakjöt um jól svo dæmi sé tekið. Þessi nýja aðferð hlýtur að vera afar áhugaverð fyrir okkar íslensku afurðastöðvar/SS.