Beint í efni

Ný nautaskrá komin út

04.11.2020

Nautaskrá fyrir veturinn 2020-21 er komin út og verður dreift til bænda á næstu dögum. Skráin er með hefðbundnu sniði en auk umfjöllunar um reynd naut og holdanaut í notkun er að finna ýmislegt fræðsluefni í skránni. Þar má nefna greinar um frjósemi í íslenska kúastofninum og aðra um skyldleikarækt þar sem halda á penna ungir og upprennandi vísindamenn sem vonandi gera landbúnaðarfræði og búvísindi að sínu ævistarfi. Þetta eru þau Þórdís Þórarinsdóttir frá Keldudal í Skagafirði sem lauk meistaranámi við LbhÍ s.l. vor og Egill Gautason frá Engihlíð í Vopnafirði sem stundar nú doktorsnám í Árósum í Danmörku.
Meðal efnis er einnig umfjölun um sæðingagjöld og þátttöku í sæðingum á landinu og svo segir Guðmundur P. Steindórsson, fyrrum ráðunautur, frá merkiskúnni Doppulínu frá Baldursheimi, móður Balda 06010. Bréf frá bónda er á sínum stað og að þessu sinni er það Ragnar Finnur Sigurðsson á Litla-Ármóti í Flóa sem ritar það.
Skráin farin til dreifingar og er ýmist dreift með póstinum, mjólkurbílum og/eða frjótæknum. Þeir sem sakna þess að fá ekki skrá innan nokkurra daga geta haft samband við sinn frjótækni, RML eða Nautastöðina og sagt farir sínar ekki sléttar. Við vonum svo að þið njótið lestursins og þeirra upplýsingar sem í skránni eru fram settar. Einnig er hægt að nálgast hana rafrænt með því að smella hér.