Ný Nautaskrá komin út
09.08.2013
Út er komin ný nautaskrá, minni að umfangi en áður. Tekin var ákvörðun um að kynna einungis ný reynd naut úr árgangi 2007, en láta kynningu úr fyrri skrá duga fyrir eldri nautin. Nálægt áramótum kemur út önnur nautaskrá og þá veglegri með kynningu á öllum þeim nautum sem þá verða í dreifingu.
Í skránni eru upplýsingar um sex naut, þau Sand 07014 frá Skeiðháholti á Skeiðum, Rjóma 07017 frá Heggsstöðum í Andakíl, Dúllara 07024 frá Villingadal í Eyjafjarðarsveit, Húna 07041 frá Syðra-Hóli i Skagabyggð, Topp 07046 frá Kotlaugum í Hrunamannahreppi og Lög 07047 frá Egilsstöðum á Héraði. Einn þeirra, Lögur 07047 undan Laska 00010 frá Dalbæ I í Hrunamannahreppi er valinn sem nautsfaðir. Aðrir nautsfeður eru Baldi 06010 frá Baldursheimi, Hörgársveit, Kambur 06022 frá Skollagróf, Hrunamannahreppi og Hjarði 06029 frá Hjarðarfelli í Eyja- og Miklaholtshreppi.
Þá er jafnframt í skránni farið yfir þann feril sem gildir um kaup nautastöðvarinnar á kálfum frá bændum og fóðrun þeirra heima á búunum. Einnig eru þar töflur um hæstu gildi kynbótamats hjá nautum fyrir einstaka eiginleika og yfirlit úr kúaskoðun um hæð kvígna undan þessum sex nautum.
Á baksíðunni er í lokin samandregið yfirlit um kynbótamat allra þeirra reyndu nauta sem nú eru í boði frá stöðinni.
Nautaskráin berst kúabændum í pósti þessa dagana.
Af www.bondi.is