Ný heimasíða með nautakjötsuppskriftum!
28.10.2010
Fyrirtækið Ferskar kjötvörur, sem er einn stærsti vinnsluaðili á nautakjöti á Íslandi, hefur nú opnað nýja heimasíðu: islandsnaut.is. Á síðunni nú í fyrstu eru fjölmargar hamborgarauppskriftir úr hamborgaraleik Íslandsnauts, sem er einmitt eitt af vörumerkjum Ferskra kjötvara. Á næstunni mun bætast við frekari fróðleikur á síðuna.
Leifur Þórsson er framkvæmdastjóri Ferskra kjötvara og aðspurður um tilgang síðunnar sagði hann í viðtali við naut.is: „Ástæðan er auðvitað að sýna hvað er hægt að gera flottan og góðan veislumat úr 100% íslenskum hamborgurum, því þeir eru ekki bara skyndibiti þó svo að þeir séu góðir! Einnig ætlum við að byggja upp síðuna með fróðleik um nautakjöt, kenna
eldunaraðferðir, allt um meyrnun og hvernig við vinnum kjötið til að tryggja hámarks gæði. Á næstunni setjum við inn fleiri uppskriftir með hakkréttum og svo pönnusteikum, ofnsteikum og svo grillsteikum“.
Aðspurður um aðrar nýjungar hjá fyrirtækinu sagði Leifur að nautasoðið hafi fengið góðar viðtökur neytenda, en soðið er lagað úr íslenskum nautabeinum og notað til sósu og súpugerðar. Þá hefur fyrirtækið einnig boðið upp á tilbúið lasagne og Bernaissósu með nautasteikunum sem neytendur hafa kunnað að meta.
„Sóknarfærin eru mest í fullunum og fullmeyrnuðum steikum sem eru tilbúnar á pönnuna, grillið eða ofninn og að kenna fólki að elda nautakjöt þá helst í gengum síðuna eins og við erum að byrja á núna“, sagði Leifur í viðtalið við naut.is.