Beint í efni

Ný bók í nautgriparækt væntanleg

20.04.2021

Árið 1984 kom síðast út kennslubók í nautgriparækt hér á landi í útgáfu Bændaskólans á Hvanneyri og frá þeim tíma hefur auðvitað ótal margt breyst í nautgriparækt hér á landi, en þó hefur ekki komið út nýtt kennsluefni með beinum hætti innan greinarinnar allan þennan tíma fyrr en nú. Snorri Sigurðsson er ritstjóri bókarinnar en að faglegum skrifum koma alls 20 aðilar sem einnig eru með staðgóða þekkingu á búgreininni. Þessi nýja bók inniheldur 20 kafla um sértæk svið búgreinarinnar og spannar bókin allt fagsvið nautgriparæktarinnar.

Þessi bók er byggð á einstaklingsframtaki og það sem meira er að allir höfundar efnis lögðu til sína vinnu ókeypis, svo bókin gæti orðið að veruleika. Þá er útgáfan styrkt að hluta til af Þróunarsjóði nautgriparæktarinnar en styrkurinn nær að dekka útlagðan kostnað við uppsetningu, yfirlestur oþh. auk þess að unnt verður að prenta gjafaeintök fyrir Landbúnaðarháskólann. Þegar bókin kemur út, nú í maí, verður hún bæði aðgengileg sem rafræn bók hér á naut.is og ókeypis fyrir alla en einnig er hægt að panta í forsölu prentað eintak bókarinnar. Bókin verður einungis seld í forsölu og því þarf að panta eintak nú, áður en hún verður prentuð, ef einhver hefur áhuga á að eignast bókina á pappírsformi.

Verðið á prentaðri bókinni liggur ekki endanlega fyrir en kaupendur munu einungis þurfa að greiða prentkostnað því bókin verður seld án álagningar en eins og fram hefur komið leggja allir höfundar til efni án endurgjalds. Þegar það liggur fyrir hve margir vilja eignast eintak mun verðið liggja fyrir en bókarverðið mun ekki fara yfir 6.000 kr. með virðisaukaskatti. Þeir sem hafa áhuga á að eignast prentað eintak skal bent á að eins og áður segir þá verður bókin eingöngu seld í forsölu fram til 15. maí og má panta eintak með því að senda tölvupóst á: snorri.sigurdsson@outlook.com