Beint í efni

Ný aðferð við markaðssetningu á osti?

01.06.2011

Undanfarnar aldir hefur ríkt afar skemmtileg hefð í bænum Brockworht við Gloucester, um 200 km. vestur af London. Þar safnast nefninlega árlega saman þúsundir manna til þess að fylgjast með nokkrum þriggja kílóa kringlóttum ostum rúlla niður brekku! Það sem á eftir fylgir er reyndar ástæða þess að fólk kemur saman, en á eftir þessum rúllandi ostum hlaupa heimamenn í þeim tilgangi að ná ostunum og er keppt í karla og kvennaflokki.

 

Ostarnir, sem kallast Double Gloucester ostar, rúlla niður snarbratta brekkur og fer fólk ofter en ekki í loftköstum niður hana. Í ár var keppnin sérlega skemmtileg enda rigning, sem gerði keppnina að miklu sjónarspili enda húrrar osturinn niður 60 metra langa brekkuna á allt að 130 km hraða.

 

Það þykir mikill heiður að ná ostinum en þessi keppni byggir á afar gamalli hefð sem á sér mörg hundruð ára sögu.

 

Árið 2009 komu 15 þúsund manns að fylgjast með og taka þátt í þessu hlaupi. Mikil þátttaka og tíð slys á keppendum gerði það að verkum að yfirvöld bönnuðu samkomuna. Í kjölfarið var keppnin „skipulögð“ og sáu þar einhverjir viðskiptajöfrar tækifæri til þess að selja að henni aðgang. Það virkaði hinsvegar alls ekki, því áhugasamir ostaeltarar stofnuðu bara aðra keppni og auglýstu á Facebook og Twitter, auk þess sem þeir stofnuðu sína eigin heimasíðu um keppnina: www.cheese-rolling.co.uk.

 

Þrátt fyrir að yfirvöld hafi í raun bannað samkomuna fór keppnin fram 30. maí, enda afar fljótlegt að boða til samkomu með framangreindum miðlum. Meðfylgjandi er hlekkur á Youtube myndband af keppninni í ár, sjón er sögu ríkari/SS.

 

http://www.youtube.com/watch?v=AlLUqkv-RRU