Beint í efni

Nú mega sænskir bændur gefa kúnum lyf

06.02.2016

Við sögðum frá því í maí í fyrra að verið væri að leggja fram ný drög að reglum í Svíþjóð sem gera mundi bændum mögulegt að hefja lyfjameðhöndlun helstu sjúkdóma. Þessi breyting er í takt við það sem hefur verið að gerast í öðrum löndum og hefur starf dýralæknanna í þeim löndum mikið færst yfir í forvarnarstarf og nýtist því sérþekking þeirra mun betur en í það handverk að sprauta grip.

 

Nú hafa þessar nýju reglur tekið gildi og fyrstu kúabændurnir hafa nú lokið nauðsynlegu námskeiði um lyfjameðhöndlun sem Växa í Svíþjóð, ráðgjafaþjónusta landsins, sá um.

 

Fyrstu viðbrögð við þessari breytingu virðast vera einkar jákvæð, enda reynslan einstaklega góð af þessu kerfi t.d. í Danmörku en þar hefur dregið úr lyfjanotkun eftir að bændurnir fóru sjálfir að meðhöndla gripi sína. Skýringin felst bæði í því að hægt er að meðhöndla gripi fyrr en áður, þ.e. ekki þarf að bíða heimsóknar dýralæknis og því líklegra en ella að meðhöndlunin skili skjótum árangri með tilheyrandi góðum áhrifum á dýravelferð. Hins vegar felst skýringin í því að með þessari breytingu á meðhöndlun lyfja breytist starf dýralæknanna umtalsvert og þeirra hlutverk mest að sinna forvörnum á kúabúunum og hefur reynslan sýnt að þessi breyting hefur afar góð áhrif þar sem lang oftast tekst hreinlega að koma í veg fyrir að skepnurnar veikist/SS.