Beint í efni

Nú gefa mjólkurframleiðslulöndin í

12.10.2017

Í kjölfar jafnrar hækkunar afurðastöðvaverðs á árinu í mörgum löndum Evrópusambandsins sjást nú skýr merki um að hærra afurðastöðvaverð sé farið að skila sér í aukinni mjólkurframleiðslu. Nú liggur fyrir uppgjör Evrópusambandsins fyrir júlí og í honum einum jókst heildarframleiðslan um 219 milljónir lítra miðað við sama mánuð í fyrra og nemur þessi aukning 1,7% að jafnaði sem segir þó ekki alla söguna enda eru sum af helstu mjólkurframleiðslulöndum Evrópusambandsins að gefa hraustlega í.

Þannig jókst til dæmis framleiðslan í Írlandi um 9,5% á milli ára, í Ítalíu um 7,3% og í Póllandi um 6,6% miðað við júlí í fyrra. Alls jókst mjólkuframleiðslan í 20 af 28 löndum Evrópusambandsins í júlí í ár miðað við í fyrra. Það sem af er árinu, þ.e. til og með júlí sl., hefur mjólkurframleiðsla þessara 28 landa þó ekki vaxið miðað við fyrra ár og raunar er um örlítinn samdrátt að ræða eða 0,3% í samanburði við fyrstu sjö mánuði ársins 2016. Helsta skýringin á því er samdráttur í mjólkurframleiðslu Þýskalands um 2,8% og Frakklands um 2,6%. Sé horft framleiðslu annarra landa innan Evrópusambandsins fyrstu sjö mánuði ársins, þá eru það sömu lönd og juku verulega framleiðsluna í júlí sem einnig eru í þremur efstu sætunum. Efst trónir Írland með 7,4% aukningu þar sem af er árinu, Pólland með 4,4% og Ítalía með 3,2%/SS.