Beint í efni

Nú er lag til að gera enn betur

25.11.2021

Á heimasíðu Nautastöðvar BÍ er að finna áhugaverð grein eftir Guðmund Jóhannesson hjá RML sem fer hér orðrétt:

Eins og menn hafa veitt eftirtekt eru þau reyndu naut sem eru í dreifingu þessar vikurnar og mánuðina firnasterk þar sem heildareinkunn liggur á bilinu 107-117. Tólf af nítján nautum eru með 110 eða hærra sem þýðir að úrvalið hefur sjaldan eða aldrei verið betra. Þessu miklu gæði reyndu nautanna virðast hafa orðið til þess að óreyndu nautin virka ekki eins spennandi og álitleg og oft áður. Þannig er hlutfall notkunar milli reyndra og óreyndra nauta frá 1. júlí sl. 58:42, var 57:43 frá 1. jan. til 30. júní sl. og 52:48 á árinu 2020.

Stöldrum nú aðeins við. Hvað þýðir þetta og hverjar verða afleiðingarnar? Kynbótaskipulagið gerir ráð fyrir hlutfalli reyndra/óreyndra nauta upp á sem næst 50:50. Þegar notkun reyndra nauta eykst minnkar notkun óreyndra nauta því fjöldi kúa tekur ekki jafnörum breytingum. Það þýðir að dreifing óreyndra nauta til prófunar dregst á langinn og þau koma því þeim mun seinna til dóms og notkunar sem reynd naut. Til lengri tíma litið þýðir þetta því að það hægir á erfðaframförum.

Þó svo reyndu nautin séu ákaflega frambærileg og spennandi megum við ekki gleyma því að meðal óreyndu nautanna er að finna enn betri naut. Reyndu nautin sem eru í notkun núna voru á sínum tíma óreynd naut og öttu þá kappi við naut eins og Dropa 10077, Úlla 10089 og Úranus 10081 sem þá stóðu á toppnum. Nú er staðan sú að staðfest hefur verið með afkvæmaprófun að þessi sömu naut standa þeim jafnfætis og framar. Þannig virka nú kynbæturnar. Þegar um framfarir er að ræða eru yngri gripir meiri að gæðum en hinir eldri.

Í þessu sambandi má heldur ekki gleyma því að vegna að vegna virkrar þátttöku og almenns áhuga bænda á nautgriparækt hefur framboð nautkálfa á nautastöðina á undanförnum árum og mánuðum verið mikið og gott. Þannig eru þau óreyndu naut sem eru í dreifingu og bíða dreifingar gríðarlega valinn hópur. Þessar vikurnar höfum við sem dæmi jafnvel verið að hafna kálfum undan kúm með 108-109 í heildareinkunn vegna framboðs undan kúm sem eru enn hærri i mati. Þetta er óskastaða sem ber að þakka fyrir og er meðal annars upp komin vegna áhuga og metnaðar kúabænda til þess að gera vel.

Innan vonandi ekki of langs tíma munum við taka erfðamengisúrval í okkar þjónustu í nautgriparæktinni. Það mun þýða nýtt og gjörbreytt kynbótaskipulag með stórauknum erfðaframförum. Stærsti einstaki þátturinn í aukningu erfðaframfara með erfðamengisúrvali er stytting ættliðabilsins þó auðvitað komi fleira til. Þessi stytting ættliðabils mun raungerast með því að erfðamat gerir okkur kleift að velja nautin til strax til fullra nota með sama öryggi og reynd naut eru valin í dag. Það þýðir að á þeim tímapunkti sem erfðamengisúrval tekur yfir verða þau naut sem að óbreyttu væru tekin til prófunar sem ungnaut sett í notkun á sama hátt og reynt naut í dag. Því má segja að í hópi óreyndu nautanna nú sé að finna naut sem með erfðamati væru koma til notkunar sem reynd naut. Í einfaldaðri mynd er eini munurinn sá að við getum ekki sagt með nægri vissu hverjir þeirra það eru eða ef við tölum bara hreina íslensku; við höfum ekki hugmynd um það.

Að þessu sögðu er einsýnt að við megum ekki gleyma okkur um stund, nú þegar við sitjum við drekkhlaðið nægtaborð reyndu nautanna sem er að sligast undan krásunum. Að framtíð skal hyggja ef vel á að byggja. Við höfum hins vegar gengið full geyst um gleðinnar dyr að undanförnu og því er staðan orðin sú að við erum enn að dreifa sæði úr óreyndum nautum fæddum 2019 en ættum fyrir nokkru að vera komin með naut fædd 2020 í notkun. Nú er í meginatriðum tvennt til ráða. Í fyrsta lagi að auka hlutdeild óreyndra nauta í sæðingunum með því að draga úr notkun reyndra nauta eða í öðru lagi, og því sem betra er, fjölga sæðingum og jafna hlutdeildina þannig.

Hvernig fjölgum við sæðingum kann einhver að spyrja. Svarið við því er sáraeinfalt og er að finna í fjölmörgum fjósum um land allt. Við búum við það að um og yfir 30% allra fæddra kálfa er undan heimanautum og er þar líklega um að ræða heimsmet, alla vega þar sem boðið er upp á sæðingar í sameiginlegu ræktunarstarfi. Þar er því mikið svigrúm til þess að fjölga sæðingum og um leið auka erfðaframfarir. Þeir gripir sem einkum er haldið undir heimanaut eru kvígur en eins og með nautin þá eru kvígurnar okkar að jafnaði betri í eðli sínu en kýrnar.

Hvern langar í kvígu undan besta nautinu og bestu kúnni sinni? Þeir eru, að ég hygg, mjög margir ef ekki flest allir.

Hvern langar í kvígu undan besta nautinu og bestu kvígunni sinni? Þeir eru, ef tekið er mið af notkun sæðinga mun færri, jafnvel tiltölulega fáir. Merkileg og jafnvel mjög órökrétt ályktun en þetta segja ákveðnar staðreyndir og tölur okkur.

Nú er lag og þörf á að breyta þessu. Aukum notkun óreyndra nauta með besta mögulega hætti sem völ er á. Fjölgum sæðingum með því að sæða kvígurnar!

/gj