Beint í efni

Nú er hægt að panta nautkálf !

09.06.2010

Fyrirtækið Viking Genetics (Skandinavíu) er nú farið að selja kyngreint sæði úr holdanautum, sérstaklega hannað fyrir mjólkurkúabú. Í fyrstu er eingöngu boðið upp á Limousine holdanaut en það hentar afar vel í blendingsrækt og í byrjun verður þetta sæði þó eingöngu í boði í Svíþjóð og Danmörku. Eins og áður hefur verið grein frá hér á

vef LK er kyngreining á sæði orðin nokkuð algeng erlendis og að fá sæði með Y-litningi er eðlilegt framhald þess að geta fengið kvígukálfa (X-litnings-sæði). Sæðið er þó ekki alveg laust við „hitt kynið“ en reikna má með því að 85% líkur séu á því að fá naut.

 

Á næstunni munu bændur í nágrannalöndum okkar geta keypt fleiri holdanautastofna, s.s. Simmentaler.

 

Í þessu ljósi er staða mjólkurframleiðenda í þessum löndum einstök, geta valið að fá kvígukálfa úr sínum bestu kúm og framleitt holdablendingsnaut með hinum kúnum. Segja má að eftir þetta verði framleiðslugeta búanna enn hagkvæmari en áður.

 

Að sögn Sveinbjörns Eyjólfssonar, framkvæmdastjóra Nautastöðvar BÍ, hefur verið rætt um hvort hefja eigi kyngreiningu á sæði hérlendis en engin ákvörðun hefur þó verið tekin um málið. Áhugi sé á þessari tækni en ákveðin vandamál séu til staðar sem þurfi að leysa, s.s. ferskleiki sæðis og þynning þess en eins og kúabændur þekkja þolir sæði úr íslenskum nautum ekki eins mikla þynningu og sæði úr erlendum nautum.

 

M.a. byggt á frétt af www.husdjur.se