Beint í efni

Nú árið er liðið

31.12.2021

Þá er komið að því, síðasti dagur ársins 2021 er runninn upp og landsmenn líta flestir um öxl til að rifja upp hvað hefur á daga þeirra drifið síðust 12 mánuði og setja sér jafnvel markmið fyrir næsta ár eins og að bæta heilsuna, lesa fleiri bækur eða eyða meiri tíma með ástvinum.

En hvað stendur uppúr á árinu þegar við kúabændur lítum um öxl?

Í byrjun árs var hugur flestra Austfirðinga og eflaust fleiri landsmanna hjá Seyðfirðingum sem höfðu upplifað hörmulegar náttúruhamfarir rétt fyrir jól og þurftu að takast á við ærin verkefni uppbyggingar í upphafi árs. Bændur á kúabúi urðu þar innlyksa vegna skriðufallanna þannig að einungis var fært sjóleiðina með helstu nauðsynjar og hella þurfti niður mjólk á bænum. Þingeyskir bændur urðu fyrir gríðarlegu tjóni vegna skriðufalla seinna um haustið. En í upphafi árs vorum við einnig minnt á áföll fyrri árra, þannig hafði óveðrið 2019 áhrif á mjólkuruppgjör 2020 í upphafi þessa árs og Bjargráðasjóður úthlutaði rúmlega 440 milljónum til bænda vegna kal- og girðingatjóns vegna áfalla vetursins 2019-2020.

Það var því óhjákvæmilegt í upphafi árs að skoða hver staða bænda væri og til hvaða úrræða væri hægt að leita þegar óbrigðul náttúruöflin taka völdin, þá sérstaklega þegar við erum farin að sjá hamfarir sem við eigum síður að venjast í auknum mæli líkt og stórkostleg skriðuföll. Starfsmenn Bændasamtaka Íslands hafa unnið að því að koma þessum málefnum í skýrari og betri farveg auk þess að kanna mögulegar tryggingaleiðir bænda.

Mjólkurframleiðslan

Á árinu dróst mjólkurframleiðslan aðeins saman miðað við árið á undan eða um 1,4% og er áætluð heildar innvigtun ársins um 149 milljónir lítra. Það er virkilega ánægjulegt að fyrirtækja- og stórnotendamarkaður virðist hafa tekið vel við sér á árinu á sama tíma og verslunarmarkaður hefur haldið sínu. Umreiknuð sala á fitugrunni síðustu 12 mánaða nam um 145 milljónum lítra. Framleiðslan er alltaf að mjakast nær greiðslumarkinu en nú rétt fyrir áramót undirritaði nýr ráðherra landbúnaðarmála breytingar á reglugerð þar sem kveðið er á um að heildargreiðslumark fyrir næsta ár verði 146,5 milljónir lítra eða hækkun um rúmt 1%.

Í apríl urðu þau tímamót að mjólkurlíterinn fór í fyrsta skipti yfir 100 krónur eða 101, 53kr./ltr. og í lok árs sóttum við aftur hækkun til bænda en 1. desember fór lágmarksverð 1.fl. mjólkur til bænda í 104,96 kr./ltr. Verðhækkanirnar taka mið af hækkuðum framleiðslukostnaði framleiðslu og vinnslu mjólkur. Þetta verður að teljast jákvæð þróun en það er sanngjörn krafa að bændur fái svipaðar launahækkanir og aðrar starfsstéttir og geti brugðist við aðfangahækkununm í sínum rekstri með því að hækka verð líkt og þekkist í öðrum rekstri.

Nautakjötsframleiðslan

Það er óhætt að segja að talsverður titringur hafi verið í kringum nautakjötsframleiðsuna strax í fyrsta mánuði ársins en íslenskt nautakjöt fékk verðskuldaða athygli fyrir að bera lægra kolefnisspor en innflutt kjöt þegar eftirminnilegir þættir fóru í loftið sem heita Kjötætur óskast. Þá reyndist okkur vel í hagsmunagæslunni að vera búin að fá verkfræðistofu EFLU til að taka út kolefnislosun íslensks nautakjöts fyrir okkur. En einnig hefur reynst okkur afskaplega dýrmætt að hafa ráðist í átaksverkefni í framleiðslu- og markaðssetningu íslensks nautakjöts.

Með því að koma því verkefni á fót höfum við loksins í höndunum greinargóð gögn til að takast á við vandamál sem steðja að greininni. Þetta sýndi sig og sannaði þegar afurðstöð boðaði verðlækkanir í upphafi árs og hvatti um leið til afsetnings á nautkálfum. Með gögnum var hægt að sýna fram á að ekki væri fótur fyrir slíkum skilaboðum en auk þess óttuðumst við hugsanleg keðjuverkandi áhrif sem hefðu getað kostað greinina um 150 milljónir króna á ársgrundvelli.

Umfangsmikil gagnavinna er ekki það eina sem við höfum uppskorið af þessu verkefni en á árinu fór vörumerkið Íslenskt gæðanaut í umferð en merkinu er ætlað að auðvelda neytendum valið með að auðkenna og auka sýnileika íslensks gæða nautakjöts.

Merkið er farið að sjást á umbúðum nautakjöts í verslunum en auk þess hefur verið komið á fót markaðssetningu á netinu og seinni hluta ársins var gefinn út bæklingur um framleiðslu og meðhöndlun á íslensku nautakjöti.

Þá hefur verið mjög ánægjulegt að sjá loksins hækkanir á verðskrám nautakjöts hjá afurðastöðvum til bænda og vona ég að við höldum áfram að þokast í rétta átt. Framleiðsluferill nautakjöts er langur og við verðum að tryggja að nægilegt framboð verði hér af gæða nautakjöti eftir 2-3 ár.

Fagleg mál

Það er hverri atvinnugrein nauðsynlegt að fylgja tíð og tíma hverju sinni og framleiðendum matvæla lífsnauðsynlegt að hlusta á kröfur neytenda. Umhverfismál og minnkun kolefnisspors er því eitt stærsta verkefni nautgriparæktarinnar. Verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður var á árinu aðlagaður að nautgriparæktinni og kúabændur tóku vel í verkefnið þegar óskað var eftir umsóknum. Það er ánægjulegt að vera loksins komin á það stig að ráðast í raunverulegar aðgerðir á búunum sjálfum. Aðgerðir sem margar hverjar stuðla að bættum rekstri ásamt því að minnka losun frá greininni.

Í kynbótastarfinu nálgumst við jafnt og þétt að geta tekið upp erfðamengisúrval og loksins, loksins! -kom út ný kennslubók í nautgriparækt. Bókin Nautgriparækt sem var ritstýrt af Snorra Sigurðssyni er frábærlega unnin, var að mínu mati bók ársins og ætti að vera til á a.m.k. hverju heimili kúbænda.

Stjórnvöld gáfu landbúnaði aukinn gaum á árinu, skýrsla var unnin um fæðuöryggi landsins og drög að landbúnaðarstefnu fyrir Ísland sem bar heitið Ræktum Ísland. Var því fylgt á eftir með fundum með bændum víða um land.

Félagsmálin

Breytingar á félagskerfi bænda voru óneitanlega eitt stærsta verkefni ársins. Landssamband kúabænda varð 35 ára á árinu en aðalfundur ársins markaði stór tímamót í sögu sambandsins þar sem fulltrúar fundarins samþykktu tillögu um nýtt félagskerfi bænda þannig að starfsemi LK færðist undir Bændasamtök Íslands 1. júlí.

Breytingar kalla á breytingar og þær geta tekið tíma. Hagsmunagæsla fyrir kúabændur er nú rekin í gegnum kúabændadeild Bændasamtakanna og vinna nú fleiri hendur þau fjölmörgu verkefni sem koma inná borð okkar. Ég hef trú á verkefninu sem er að ná fram aukinni skilvirkni og byggja upp öfluga hagsmunagæslu fyrir íslenskan landbúnað, bæði fyrir einstakar búgreinar og heildina.

Mannabreytingar

Það er óhætt að segja nokkrar mannabreytingar hafa orðið í starfsumhverfi hagsmunagæslu kúabænda. Vigdís Häsler tók við sem framkvæmdastjóri Bændasamtak Íslands í febrúarmánuði eftir að Sigurður Eyþórsson færði sig yfir í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Þá var vitað að eftir alþingiskosningar fengjum við nýjan ráðherra landbúnaðarmála. Svandísi Svavarsdóttur býð ég velkomna til starfa og þakka um leið Kristjáni Þór fyrir það samstarf sem við höfum átt í hans ráðherratíð.

Breytingar urðu einnig á stjórn Nautís. Sigurður Loftsson sem setið hefur sem fulltrúi Landssambands kúabænda og formaður Nautís frá upphafi, gaf ekki áframhaldandi kost á sér til stjórnarsetu og er Jón Örn Ólafsson á Nýjabæ nýr fulltrúi okkar og formaður. Sigurði vil ég þakka kærlega fyrir sitt framlag og starf í þágu íslenskrar nautgriparæktar í gegnum tíðina.

Margrét okkar, Gísladóttir lætur af störfum núna um áramótin eftir 5 ára starf fyrir Landssamband kúabænda og síðar Bændasamtök Íslands. Margréti vil ég þakka kærlega fyrir vel unnin störf fyrir greinina og frábært samstarf sem hefur verið mér lærdómsríkt og gefandi. Við missum Margréti sem betur fer ekki mjög langt frá okkur og hlakka ég til að fylgjast með henni á nýjum starfsvettvangi hjá Mjólkursamsölunni.

Við keflinu tekur annar Skagfirðingur, Guðrún Björg Egilsdóttir frá Daufá, og býð ég hana innilega velkomna til starfa nú um áramótin.

Áskoranir næsta árs

Áframhaldandi uppbygging og styrking nýrra Bændasamtaka Íslands mun halda áfram. Allir starfshópar sem stofnaðir voru við endurskoðun nautripasamnings 2019 höfðu komið frá sér skilabréfi seinni hluta síðasta árs. Ríkisstjórnarmyndun í kjölfar Alþingiskosninga í haust tók heldur lengri tíma en flestir höfðu gert ráð fyrir og enn frestaðist að leggja fram tillögur sem bændur eiga að kjósa um og klára þar með endurskoðun ársins 2019. Það er því auðvitað forgangsverkefni að klára þessi mál sem allra fyrst á nýju ári og koma undirbúningsvinnu fyrir næstu endurskoðun á fullt skrið.

Það hlýtur að vera megin markmið okkar sem vinnum við hagsmunagæslu landbúnaðarins að tryggja bændum starfsumhverfi sem gerir okkur kleift að hafa sanngjarna afkomu af okkar rekstri. Búvörusamningar og tollvernd hafa alltaf skipt íslenskan landbúnað miklu máli en nú tökumst við á við nýjar áskoranir. Afleiðingar heimsfaraldurs með tilheyrandi hökti í aðfangakeðju heimsins hafa líklega ekki farið fram hjá neinum og munu hafa finnanleg áhrif á bændur landsins á næsta ári. Endanleg áhrif á aðfangaverð og framboð eru enn ekki að fullu ljós en hér verður líklega um eina stærstu áskorun landbúnaðarins að ræða á komandi ári. Það er vonandi að úr þessu ástandi rakni sem allra fyrst en það er að mínu mati alveg ljóst að aðkoma stjórnvalda verður mikilvæg til þess að bændur landsins geti staðið af sér storminn.

Að lokum vil ég þakka bændum, stjórnarfólki, starfsfólki Bændasamtaka Íslands og öðru samstarfsfólki fyrir samstarfið á árinu.

Með ósk um gleðilegt og uppskeruríkt ár á öllum sviðum!

Herdís Magna Gunnarsdóttir, formaður kúabænda

Ritað á Egilsstöðum, 31. desember 2021