Beint í efni

Notuð mjaltatæki, mjólkurtankar og innréttingar

03.08.2013

Í kjölfar hins erfiða ástands sem verið hefur á mörkuðum frá 2008 hafa mörg kúabú í Evrópu hætt framleiðslu og er nú til sölu óvenju mikið og fjölbreytt úrval notaðra mjaltatækja, mjólkurtanka og innréttinga. Bæði er hægt að kaupa tæknibúnað beint af öðrum bændum en einnig í gegnum sérstök fyrirtæki sem sérhæfa sig í viðgerðum og viðhaldi búnaðar og má finna hvorutveggja á hinum annars víðáttumikla veraldarvef.

 

Í Danmörku eru nokkrir aðilar sérhæfðir í þessu og má t.d. nefna sérstaklega fyrirtækið Stald Mæglerne A/S (http://www.staldmaeglerne.dk/shop/brugte-158s.html) en það fyrirtækið selur allan notaðan búnað sem hugsast getur fyrir kúabú s.s. notaða mjaltaþjóna, mjaltakerfi, sogdælur, innréttingar og varahluti.

 

Annað fyrirtæki, Milcotec, er meira sérhæft í mjaltaþjónum og byrjaði sem samkeppnisaðili Lely í Danmörku við sölu varahluta og þjónustu við bændur sem eiga Lely mjaltaþjóna. Í seinni tíð hefur fyrirtækið einnig farið út í kaup og sölu á öðrum búnaði, s.s. sköfuróbótum, DeLaval mjaltaþjónum, flokkunarhliðum og öðrum búnaði.  Þá selur fyrirtækið einnig nýja varahluti í Lely, sem þó eru ódýrari en amk. Lely sjálft selur hlutina á í Danmörku. Hægt er að fræðast nánar um það sem er til sölu á heimasíðunni: www.milcotec.com.

 

Enn eitt fyrirtækið má nefna hér en það er fyrirtækið KB-Køleteknik en eins og nafnið gefur til kynna er þetta fyrirtækið sérhæft í kælikerfum og selur mest notaða mjólkurtanka. Oftast eru tankar seldir án kælivélanna sjálfra en minni tankar þó eðlilega með kælivélum. Algengt verð á tönkum nú eru 7-10 danskar krónur á líterinn, þ.e. 6.000 lítra tankur kostar þá notaður um 42-60.000 danskar krónur (án vsk.) eða um 890-1.270 þúsund íslenskar krónur. Nánar má fræðast um mjólkurtankana á heimasíðu fyrirtækisins: http://kb-koleteknik.dk/brugte-koeletanke.

 

Hér var bara tekið lítið dæmi um það sem er í boði í Danmörku en margir aðrir aðilar sjá um sölu á búnaði um allan heim, svo ef áhugi er fyrir hendi á því að fá eitthvað ódýrari vörur, þá eru möguleikarnir til staðar. Rétt er að geta þess að ef notaður búnaður er fluttur til landsins þarf að sjálfsögðu að sótthreinsa hann í samræmi við kröfur Matvælastofnunnar, líkt og gert hefur verið áður þegar notaður búnaður hefur verið fluttur til landsins/SS.