Beint í efni

Notkun á kyngreindu sæði skapar nýja möguleika

24.05.2013

Í nýjasta hefti Avlsnyt, fréttabréfs sem skandinavíska nautgriparæktarfélagið Viking Genetics gefur út, er viðtal við kúabóndann Peter Hviid Jensen, sem býr með 215 RDM kýr í Børkop, milli Vejle og Fredericia á Jótlandi. Peter hefur stundað búskap síðan 1986, er hann tók við búi af foreldrum sínum, þá 23 ára gamall. Hann hefur á undanförnum misserum hagnýtt sér kyngreint sæði í auknum mæli. Ástæðuna segir hann vera þá, að í því kreppuástandi sem ríkt hafi undanfarin misseri í mjólkurframleiðslunni, sé afar mikilvægt að nýta alla möguleika til tekjuaukningar og hagræðingar í búskapnum.

 

Markmiðið er að nota kyngreint sæði úr RDM nautum á besta fjórðunginn af kúnum og á allar kvígur. Kyngreint sæði úr holdanautum, aðallega Limousin en einnig lítillega af Simmental, er síðan notað á lakasta fjórðunginn af kúnum. Mikilvægt sé að kýrnar séu vel yxna þegar sætt er með kyngreindu sæði (mun meiri þynning), og þar sem það er rúmlega tvöfalt dýrara en hefðbundið sæði (4.700 kr skammturinn á móti 2.000 kr) eru kýr sem stendur til að farga ekki sæddar með slíku sæði.

 

Með því að nota kyngreint holdanautasæði er hlutfall nautkálfa 85%, en væri að öðrum kosti um helmingur ef hefðbundið sæði væri notað. Kostnaðurinn við kyngreinda sæðið er nokkur, eða um 25.000 kr á kálf og liggur hann í dýrara sæði eins og áður segir, auk þess sem geldstaða kúnna er lengri vegna ívið lægra fanghlutfalls. Á móti kemur að frálagsvirði blendingsnautanna er um 25.000 kr meira en hreinræktaðra RDM nauta, auk þess sem þau ná sláturstærð mánuði fyrr og í því liggur aukin hagkvæmni. Auk þess hefur verðið á kyngreinda sæðinu farið lækkandi, sem gerir það enn áhugaverðari kost. 

 

Peter leggur mikla áherslu á léttan burð hjá blendingskálfunum, því verði holdanautin sem sæði er kyngreint úr að vera með háa kynbótaeinkunn fyrir burðareiginleika; gefa fremur litla kálfa og léttan burð. Sú hefur verið raunin, þar sem 15 af 17 burðum blendingskálfa sem til eru komnir með kyngreindu sæði hafa gengið áfallalaust fyrir sig.

 

Það er því ljóst að notkun á kyngreindu sæði er mjög að ryðja sér til rúms og bændur í nágrannalöndunum eru á fullu við að hagnýta sér þá möguleika sem það býður uppá, til að efla búreksturinn./BHB

 

 

 

 

Um bú Peter Hviid Jensen:

  • 215 RDM kýr
  • 1.800.000 ltr mjólkurkvóti
  • 1 ráðinn starfsmaður, auk sonar bóndans.
  • Meðalnyt 9.100 kg mjólkur, 378 kg fita og 316 kg prótein
  • Meðal burðaraldur kvígna 24,7 mánuðir.