Notkun á holdanautasæði fer vaxandi á ný
17.07.2013
Í skýrslu starfshóps um eflingu nautakjötsframleiðslunnar, sem skilað var til ráðherra í byrjun þessa mánaðar, er að finna yfirlit um notkun á holdanautasæði úr Angus og Limousin stofnunum sem fluttir voru til landsins árið 1994. Þar kemur fram að fljótlega eftir að notkun þess hófst árið 1996, varð hún á bilinu 2.000-2.500 skammtar á ári fram til áranna 2002 og 2003 er notkunin dróst verulega saman. Samdráttinn þá mátti rekja til þess að mikið verðfall varð á nautakjöti, í kjölfar gríðarlegs offramboðs á hvítu kjöti á þeim árum. Notkunin var síðan um og innan við 500 skammtar á ári næstu ár, en undanfarin tvö ár hefur hún farið vaxandi á ný og í fyrra voru notaðir 683 sæðisskammtar, 451 úr Angus og 232 úr Limousin. Sjá má þróunina í notkuninni á myndinni hér að neðan.
Starfshópurinn dregur þá ályktun að notkunin væri væntanlega mun meiri ef bændur hefðu aðgang að nýju og óskyldu erfðaefni; holdanautabændur hafa í all nokkur ár ekki getað notað það sæði sem til er vegna innbyrðis skyldleika gripanna. Notkun á sæði úr Galloway sem flutt var inn á 8. áratugnum hefur verið hverfandi lítil undanfarin ár, eða á bilinu 50-60 skammtar á ári, samkvæmt upplýsingum frá Nautastöð Bændasamtaka Íslands. Það sæði er enda orðið 25-30 ára gamalt og forfeður nautanna sem það er úr, komu í heiminn fyrir 40-50 árum síðan.
Alls voru teknir rúmlega 79 þúsund skammtar úr Angus og Limousin nautunum sem flutt voru sem fósturvísar frá Danmörku í einangrunarstöðina í Hrísey á sínum tíma. Angi 95400 gaf 14.032 skammta, Álfur 95401 gaf 13.161, Arður 95402 gaf 9.534, Ljúfur 95450 gaf 5.667,
Ljómi 95451 gaf 15.617 skammta og úr Linda 95452 náðust 21.320 sæðisskammtar. Í árslok 2012 var búið að nota 20.496 skammta úr þessum nautum.
Myndin sem fylgir með pistlinum er af nautinu Betong av Dagrød, f. 18. mars 2006 í Noregi, í eigu ræktunarfélagsins TYR./BHB