Notaðu spenadýfu eða –sprey, síðasti hluti
06.10.2012
Þarsíðasta laugardag fjölluðum við hér á naut.is um mikilvægi þess að nota spenadýfu og síðasta laugardag beindum við sjónum að mismunandi gerðum sem í boði eru, sem og tæknilegum þáttum. Nú í síðasta hluta þessarar umfjöllunar verður horft til efnanotkunar fyrir mjaltir.
Töluvert algengt erlendis
Oftast þegar rætt er um spenadýfur eða spenasprey þá er átt við efni sem notuð eru eftir að mjöltum líkur eða efni sem notuð eru á geldstöðu. Undanfarin ár hefur þó færst verulega í vöxt að nota efni fyrir mjaltir einnig. Sum þeirra efna sem eru á markaðinum eru tvíþætt, þ.e. bæði virka losandi á óhreinindi á spenum og um leið sótthreinsa yfirborð spenanna. Önnur þessara efna eru hinsvegar eingöngu sótthreinsandi og virka ekki á óhreinindi.
Vinna á umhverfisbakteríum
Með því að nota efni á spenana fyrir mjaltir er hægt að draga verulega úr sk. umhverfissmitefnum og koma í veg fyrir að kýrnar beri með sér bakteríur úr umhverfinu (s.s. uberis eða dysgalactiae) sem svo geta borist upp í júgurvefinn við eða eftir mjaltir. Að sama skapi eru efnin sem notuð eru eftir mjaltir þá frekast hönnuð til þess að takast á við bakteríur sem eru tendar mjöltunum (s.s. aureus).
Gefa efninu tíma
Þegar dýfa er notuð fyrir mjaltir þá er grunnreglan sú að spenarnir eiga að vera hreinir áður en dýfan er notuð. Þannig er ekki fráleitt að þvo spenana fyrst, taka fyrstu bogana úr þeim og nota svo dýfuna á eftir. Svona ferill kann að virka framandi á marga enda tiltölulega nýr af nálinni. Þegar efnið hefur verið á í þann tíma sem því er ætlað að virka (oft miðað við 15-30 sekúndur) þá er speninn þrifinn á ný og mjaltatækin sett á. Það má að sjálfsögðu einnig nota sprey en þá þarf að huga að því að efnið berist örugglega á spenaendann og amk. hálfann speann. Um leið og efnin eru notuð með þessum hætti hafa þau jafnframt áhrif á flæði mjaltavakans og örva því flæði mjólkur við mjaltir.
Sömu efnin fyrir og eftir mjaltir
Sum efnin sem eru á markaðinum eru hönnuð og þannig samsett að þau virka á fjölbreytta flóru af bakteríum og smitefnum og má því nota bæði fyrir og eftir mjaltir. Sé um slík efni að ræða þarf þó að hafa hugfast að joðinnihald efnanna ætti að vera 0,5% eða minna þar sem joð getur bundist við húðina og smitast við mjaltir út í mjólkina. Þá er afar æskilegt að efnin sem notuð eru fyrir mjaltir innihaldi efni til húðmýkingar og er oft miðað við 10-14% hlutfall í blöndunni. Kosturinn við að kaupa efni sem má nota fyrir og eftir mjaltir er m.a. sá að slíkt efni má nota í mjaltaþjónum (amk. einni gerð) sem geta hæglega spreyjað fyrir þvott og svo að sjálfsögðu aftur eftir mjaltir.
Margar rannsóknir til
Það hafa verið framkvæmdar ótal rannsóknir á virkni þess að nota spenadýfu eða –sprey fyrir mjaltir en þekktustu rannsóknirnar voru framkvæmdar hjá Cornell, Háskólanum í Vermont og Tennessee. Í þessum þremur sjálfstæðu rannsóknum kom í ljós að með því að nota spenadýfur fyrir mjaltir mátti draga úr júgurbólgutilfellum af völdum umhverfisbaktería um 50% umfram það að eingöngu þrífa spenana fyrir mjaltir með þó einum klút pr. kú. Þess má geta að í öllum rannsóknunum voru spenarnir fyrst þrifnir og svo voru efnin sett á enda má ætla að virkni efna sé töluvert minni sé speninn ekki hreinn fyrir enda gagnslítið að bera sótthreinsandi efni á óhreint yfirborð.
Algengustu mistökin
Þegar skoðuð er reynsla erlendis frá af notkun á efnum til þess að takast á við smitefni og halda niðri júgurbólgu kemur í ljós að oft eru sömu mistökin gerð. Lang algengustu mistökin eru að efnin eru ekki rétt borin á spenana. Þar eru algengustu mistökin röng notkun á spreyi, lélegt eftirlit með því að efnin séu rétt borin á (afar algengt í mjaltaþjónafjósum) og/eða ekki nógu djúpir spenadýfubollar miðað við spenastærðir á viðkomandi búi (speninn nær ekki allur að þekjast með efninu).
Þar á eftir í röðinni eru mistök við geymslu á efnunum sem gera þau minna virk eða jafnvel óvirk. Áður hefur frost verið nefnt sem er ekki heppilegt fyrir geymslu á viðvæmum efnum en einnig má nefna beint sólarljós og jafnvel geymsla í opnu íláti sem getur gert það að verkum að uppgufun verður og virknin fellur.
Í þriðja sæti kemur svo rangt val á efnum miðað við smitálag viðkomandi bús og þau smitefni sem um ræðir á viðkomandi kúabúi. Þá vinna sum efni afar illa saman til notkunar fyrir og eftir mjaltir og hafa bændur lent í því að efnahvörf verða á milli efnanna sem geta valdið sárum á spenum og húðertingu.
Að lokum
Vart þarf að taka fram að notkun á efnum er alls engin töfralausn. Ef ekki er stunduð virk bústjórn, þar sem unnið er markvisst að því að koma í veg fyrir að bakteríur dafni í umhverfinu eða geti smitast á milli kúa s.s. vegna lélegra mjaltatækja eða lélegrar tækni eða vinnubragða við mjaltir, þá verður notkun á efnum gagnslítil. Hins vegar hafi verið sett niður gott skipulag sem allir fylgja, þá getur notkun á spenadýfu eða spenaspreyi verið lykill að góðum og jöfnum árangri/SS.
Heimildir allra þriggja pistlanna:
www.cabv.ca
www.nmconline.org
www.hc-sc.gc.ca
www. vfl.dk