Beint í efni

Notaðu spenadýfu eða -sprey, fyrsti hluti

22.09.2012

Í dag er kúabændum erlendis nánast undantekningarlaust ráðlagt að nota spenadýfu á kýrnar eftir mjaltir og sé ekki mögulegt að gera slíkt þá að nota spenasprey, sem er þó ekki eins gott.

 

Afhverju á að nota spenadýfu?

Tíðni nýrra júgurbólgutilfella fer eftir því hlutfallsálagi smitefna sem júgurvefurinn lendir í og þar geta m.a. verið á ferðinni smitefni nærri spenaenda eða smitefni í umhverfinu sem geta farið í lítil sár eða rispur á spenahúðinni. Með dýfunum gerð tilraun til þess að drepa bakteríur á yfirborði spenanna ásamt því að loka spenaendunum fyrir smitefnum.

 

Dregið úr smitálagi

Með því að nota rétta spenadýfu strax eftir mjaltir er hægt að stórlega draga úr þessu smitálagi ásamt því að auðvelda mögulegum spenasárum að gróa. Jafnframt verður húðin mýkri og þolir betur álag. Spenadýfur henta sérstaklega vel þar sem smitefni eins og Staphylococcus aureus valda usla, svo ekki sé talað um Streptococcus agalactiae. Þessar bakteríur smitast auðveldlega á milli kúa og notkun á réttum spenadýfum henta afar vel til þess að vinna gegn þessari óværu.

 

Ekki eingöngu

Spenadýfur eingöngu þykja ekki henta eins vel ef um annarskonar smit er að ræða eins og sk. umhverfissmit. Þar koma til aðrar aðferðir til viðbótar sem lúta fyrst og fremst að vinnbrögðum í fjósi. Kúnum á að halda hreinum s.s. með notkun á undirburði og almennilegri loftræstingu, hafa mjaltatækin rétt stillt og uppmæld og fleira mætti nefna.

 

Hvers má vænta af notkun á spenadýfu?

Í Kanada er starfræktar öflugar rannsóknir á sviði júgurbólgu (NMC) og þar hafa rannsóknir sýnt allt að 50% fækkun nýrra tilfella af júgurbólgu sé rétt spenadýfa notuð strax eftir mjaltir í stað þess að nota ekki neitt. Spenadýfurnar hafa hinsvegar engin áhrif á júgurbólgu sem þegar hefur komið sér fyrir en draga að líkindum úr duldri júgurbólgu einnig (CNS smiti).

 

Vinnur ekki gegn júgurbólgu sem þegar er komin

Séu kýrnar þegar með háa frumutölu en þó ekki veikar, er ráðlegast að takast á við það í geldstöðunni með réttum lyfjum og eftir föngum spenalokun í kjölfarið. Spenadýfa virkar ekki á þessar kýr, enda ekki lyf í þeim skilningi.

 

Geldstöðumeðhöndlun er algengasta aðferðin sem notuð er í dag í Danmörku og sú aðferð sem bændum er uppálagt að nota. Þá er bændum í dag ráðlagt að nota spenadýfur einnig á geldar kýr og kvígur með reglulegu millibili til þess að minnka líkur á því að þær beri með júgurbólgu.

 

Næsta laugardag verður umfjöllun um spenadýfur og spenasprey haldið áfram og þá fjallað um meðhöndlun og vinnubrögð við efnin og tólin sem notuð eru, ásamt því að fjalla um þætti sem lúta að vali á efnum/SS.