Beint í efni

Notaðu spenadýfu eða –sprey, annar hluti

29.09.2012

Síðasta laugardag fjölluðum við hér á naut.is um mikilvægi þess að nota spenadýfu. Nú er komið að síðari hluta umfjöllunarinnar og sjónum beint að mismunandi gerðum sem í boði eru, sem og tæknilegum þáttum.

 

Sprey eða dýfa?

Í raun má nota flest efni bæði sem dýfur og sprey og eru báðar aðferðirnar nothæfar en sprey er hinsvegar mun vandmeðfarnara og hefur oft komið í ljós að sprey gefur falskt öryggi. Ástæðan er sú að bændur sprauta efninu upp undir spenana en geta ekki verið öruggir með að efnið hylji vel og nái að loka spenaendanum. Vegna mjög tíðra mistaka við notkun á spenaspreyi, ætti fyrsta val alltaf að vera spenadýfa en ekki –sprey.

 

Notkun á spenadýfu

Margar gerðir af mismunandi spenadýfubollum eru í boði og sitt sýnist hverjum að sjálfsögðu. Bæði eru til bollar sem fyllt er á handvirkt, en einnig bollar sem eru tengdir með slöngu við sameiginlegt kerfi sem sjálfvirkt heldur efninu í réttu magni. Hvaða gerð sem er notuð, þá er afar mikilvægt að tæma bollana alltaf eftir mjaltir, þrífa þá og láta standa tóma á milli mála. Ennfremur þarf að skvetta úr þeim og þvo í miðjum mjöltum ef skítur lendir ofan í bollanum, enda fráleitt að nota hann skítugann og væntanlega betra að nota ekkert en óhreinan spenadýfubolla. Þegar spenadýfan er sett á spenann, er mjög mikilvægt að hylja allan spenann vel annars má vænta minni virkni af efninu. Að mjöltum loknum á alltaf að henda restunum úr bollunum og alls ekki hella aftur í stærra ílát til síðari nota.

 

Notkun á úða

Líkt og með spenadýfubollana eru fjölmargar lausnir í boði fyrir spenasprey, bæði mismunandi brúsar og einnig dælukerfi með þar til gerðum sprautum og svo auðvitað kerfin sem mjaltaþjónar nota. Notaðu eingöngu efni sem eru gefin upp fyrir spenasprey og svo þarf sérstaklega að passa að alltaf sé nóg efni í brúsanum eða í sprautunni sem notuð er.

 

Afar mikilvægt er að forðast of mikinn þrýsting við sprautun efnisins, svo dropastærð úðans verði ekki of lítil. Gatið sem efnið sprautast út um ræður einnig miklu um dropastærðina og þarf að passa að gatið sé alltaf hreint og rúmt. Miðað er við að dropastærð eigi að verað meiri en 10 µm til þess að draga úr líkum á að efni berist í öndunarveg þess sem sprautar efninu á kúna. Eftir að búið er að úða, tryggið þá að efnið hafi þakið allt yfirborð spenans og spenaendans með því að skoða vel spenana og ef ekki hangir dropi neðan í hverjum spena, þá hefur efninu ekki verið sprautað rétt á.

 

Hvaða efni á að nota?

Góð efni virka vel á helstu smitefni sem valda júgurbólgu og eru því afar hagstæð í notkun og umfram allt afar einföld í notkun. Þegar kemur að vali á efnum vandast hinsvegar málið, enda eru tugir efna á markaðinum. Hér á landi er engin stofnun sem sérstaklega hefur tekið að sér að skrá og votta spenadýfur eða spenasprey og því þarf að treysta á erlenda aðila í því sambandi.

 

Í Bandaríkjunum (Food and drug administration – FDA), Kanada (Veterinary drugs directorate – VDD) og hjá Evrópusambandinu (European medicines evaluation agency – EMEA) eru stofnanir sem skrá viðurkennd efni og það er ágæt byrjun – þ.e. að fara fram á það við söluaðilann að eingöngu sé um að ræða skráð efni. Það tryggir amk. að efnið er staðlað að framleiðslu.

 

Þegar horft er til virkni viðkomandi spenadýfu eða –spreys vandast málið því fáir opinberir aðilar í heiminum gera kröfu um vottun á virkni efnanna, þar sem þetta eru ekki lyfseðilskyld efni. Þannig er það með FDA í Bandaríkjunum að sú stofnun skráir efni en fer ekki fram á upplýsingar um virkni þeirra. Hinsvegar fer EMEA fram á að efni séu prófuð við stöðluð skilyrði og í Kanada fara öll efni í gegnum töluverðar rannsóknir á virkni, öryggi við notkun og framleiðsluaðferðum.

 

Í ljósi framangreindra upplýsingar ættu bændur að horfa til efna sem hafa hlotið viðurkenningu t.d. frá EMEA eða VDD og forðast óskráð efni sem hafa ekki verið prófuð af óháðum aðilum. Allir framleiðendur sem hafa fengið viðurkenningu hjá annaðhvort EMEA eða VDD taka það væntanlega fram á framleiðsluupplýsingum viðkomandi efnis. Annarsvegar með skráningarnúmeri frá EMEA eða sk. DIN númeri frá VDD.

 

Enn ein stofnunin, NMC National Mastitis Consil – sem kalla mætti „alþjóðlega júgurbólguráðið“, gefur reglulega út lista með þeim efnum sem hafa verið reynd og reynst vel gegn ólíkum gerðum af júgurbólguvaldandi bakteríum. Á heimasíðu ráðsins, www.nmconline.org, má nánar fræðast um þessi efni auk þess sem þar er margskonar annan fróðleik að finna um júgurbólgu og frumtöluvandamál.

 

Ekki alltaf sömu efnin árið um kring

Varðandi val á efnum getur verið erfitt að gefa heildstæðar leiðbeiningar og ráðlegast að leita til mjólkurgæðaráðunautanna um aðstoð við valið, enda þarf hvert bú að hafa fleiri en eina gerð efna aðgengilega t.d. þar sem á sumrin á að nota aðra gerð en að vetrinum. Þar sem spenahúð er þurr og mögulega einhver smásár á spenum þarf að velja feitari efni og þar sem eru notaðir mjaltaþjónar er í dag ráðlagt að nota joð-blandað efni (ekki of sterkt þó) svo dæmi sé tekið. Svo fást efni sem bægja flugum frá (t.d. afar heppilegt fyrir mjaltaþjónabú) og efni sem sem berjast gegn vírussmiti einnig.

 

Aðstaða og smitálag er mismunandi á milli búa og því fráleitt að ætla að eitt efni henti fyrir alla. Upplýsingar um virk efni endurnýjast hratt og nánast stöðugt bætast ný efni við sem talin eru betri en hin eldri. Þarna þarf kúabóndinn því fyrst og fremst að treysta á opinabert eftirlit sem hefur prófað efnin og sannreynt virkni þeirra og fjárfesta svo í efnum sem henta á viðkomandi kúabúi. Svo má að sjálfsögðu benda á ráðgjafa SAM á sviði mjólkurgæða, sem þekkja vel til flestra ef ekki allra efna á markaðinum.

 

Geymsla á efnum

Afar algengt er erlendis að mjög kalt verður í fjósum að vetrinum til og hreint ekki óalgengt að það frjósi í sumum hlutum fjóssins. Flest efni sem notuð eru til smitvarna þola illa frost þar sem þau geta þá botnfallið og virkni þeirra fellur. Geymið efnin á köldum stað en þar sem þó frýs ekki. Að sama skapi er mikilvægt að virða notkunartíma efnanna en á umbúðunum ætti alltaf að standa „best fyrir“ eða sambærilegar upplýsingar. Virknin í efnunum fellur eftir hinn uppgefna dag og gagnsemin þar með.

 

Næsta laugardag verður svo síðasti hluti þessarar umfjöllunar, en þá verður fjallað um notkun efna fyrir mjaltir/SS.

 

Heimildir:

www.cabv.ca

www.nmconline.org

www.hc-sc.gc.ca

www. vfl.dk