Beint í efni

Nota hárgel á kýrnar!

19.07.2013

Þeir sem fylgjast vel með kynbótastarfi erlendis þekkja vel hve fínar myndirnar eru af öllum sýndum gripum og hve mikið virðist lagt í að gera þá tilbúna fyrir útlitsmatið og myndatökur. Það gera etv. ekki margir sér grein fyrir hve mikið er lagt í útlitsfráganginn en þar sem um milljónatugi getur verið að ræða eftir því hvaða dóm gripurinn fær, þykir ekki óeðlilegt að nota allt að klukkutíma í það að kemba og klippa til gripi fyrir sýningu.

 

Fyrir sýningu grips er hann fyrst klipptur og svo sápuþveginn svo ekki beri á hlandblettum eða skítugum feldi. Þar á eftir þurrkaður með þar til gerðum hárblásurum og oftar en ekki klipptur á ný til þess að klára endanlega verkefnið. Að lokum er ekki óalgengt að nota bæði hársprey og hárgel til þess að annað hvort ýfa upp eða bæla hár eftir því sem við á hverju sinni. Auk þessa er oft í tösku kúasnyrtisins bæði hvítt, svart og rautt sprey, hveiti og fleiri hjálparefni sem notuð eru til þess að gæða gripina hinu endanlega glæsilega útliti. Þess má geta að erlendis er boðið sérstaklega upp á námskeið fyrir bændur í því að snyrta til gripi fyrir myndatöku eða kynbótasýningar/SS.