
Norskur kúabóndi ekki sett kýrnar út í 36 ár!
29.12.2017
Það er víða hægt að fara á svig við reglur og lög og bóndi einn í Rogalandi í Noregi hefur svo sannarlega sannað það en nýverið viðurkenndi hann að hafa ekki sett kýrnar sínar út síðustu 36 ár! Norskum bændum ber skilda til að setja kýrnar út í gerði eða á beit en þessi bóndi viðurkenndi, er fulltrúar þarlendra eftirlitsaðila voru í eftirlitsheimsókn í haust, að hann hafði ekki sett neina gripi út sl. sumar. Um leið viðurkenndi hann að það hafði hann ekki gert síðan 1981!
Þessi bóndi hafði reyndar verið undir nokkru eftirliti frá hinu opinbera síðustu tvö ár vegna afstöðu hans til útivistar nautgripa en þrátt fyrir aukið eftirlit hafði hann ekki skipt um skoðun. Nú kann þó að vera að þolinmæði hins opinbera í Noregi sé á þrotum, sem skýrir m.a. að málið komst í fjölmiðla. Bóndinn uppskar því með þvermóðskunni bæði myndarlega fjölmiðlaumfjöllun og jafnframt nýverið sekt upp á rúmlega 50 þúsund norskar krónur eða rúmlega 630 þúsund íslenskar krónur. Þá má fastlega búast við því að fylgst verði afar náið með búi hans næsta sumar/SS.