Beint í efni

Norsku nautin í nýtt fjós

16.09.2017

Um miðjan ágúst tók norska kynbótafyrirtækið GENO í notkun nýtt fjós fyrir reyndu nautin en þau voru áður hýst í svokölluðu biðnautafjósi. Fjósið var fyrst og fremst geymslustaður fyrir nautin þar til reynsla var komin á dætrahópa þeirra og þar með reynsla á nautin sjálf. Þar til þessi dómur lá fyrir liðu auðvitað nokkur ár og því voru nautin geymd í biðnautafjósinu þar til í ljós kom hvort þau yrðu notuð áfram eða ekki. Með tilkomu nýrrar kynbótatækni, þ.e. vali á grundvelli erfðamengis, er ekki lengur þörf fyrir þetta biðnautakerfi og var byggt nýtt fjós fyrir nautin, enda hið gamla komið til ára sinna en það var tekið í notkun árið 1980.

Svo skemmtilega vildi til að það var sami starfsmaðurinn, hann Ole Nyhus, sem sá um að leiða fyrsta nautið inn í biðnautafjósið árið 1980 og sem sá um að leiða síðasta nautið úr biðnautafjósinu og yfir í nýja fjósið en í því geta 80 naut verið. Á heimasíðu GENO var að finna skemmtilegar myndir frá þessum tímamótum, sem hér má sjá fyrir neðan.

Hér má sjá Ole að ná í síðasta nautið inn í biðnautafjósinu.

Hann teymist vel

Nýja fjósið er með bæði einkastíum og hópstíum.

Strax daginn eftir flutning, voru nautin farin að nota básana!