Norskir sláturleyfishafar styrkja stöðu sína með samvinnu
27.09.2010
Með því að standa sameiginlega að opnun á nýju sláturhúsi í Malvik hafa sláturleyfishafarnir Nortura og Grilstad tekið nokkuð óvenjulegt skref, en sláturleyfishafarnir eru í samkeppni bæði um gripi til slátrunar en einnig sölu sláturafurða! Skrefið sem fyrirtækin stigu sýnir vel með hvaða hætti hægt er að reka afurðafyrirtæki í landi þar sem kostnaður er hár, en samvinnan um slátrunina er metin afar hagstæð fyrir samfélagið, sláturiðnaðinn og það sem
mestu skiptir auðvitað; bændurna sjálfa. Nýja sláturhúsið var tekið í notkun í ágúst og þar er hægt að slátra bæði sauðfé og nautgripum.
Sláturhúsið, sem einnig er kjötvinnsla, er í eigu Nortura en Grilstad leigir slátrun af Nortura. Um leið og opnað var í Malvik lokuðu fyrirtækin öðrum stöðum þar sem áður var slátrun og/eða kjötvinnsla í héraðinu, en fyrirtækin ráku alls sláturhús eða kjötvinnslur á átta stöðum (Namos, Fosen, Oppdal (2), Ålesund, Þrándheimi, Verdalen og Levanger).
Nánar um Nortura Malvik
– Fjárfesting upp á 630 norskar milljónir eða um 12,3 milljarðar íslenskra króna
– Árlega verður um 80 þúsund nautgripum og 185 þúsund sauðfjár slátrað í húsinu
– Nortura Malvik er með 180 fastráðna starfsmenn og 70 lausráðna í sauðfjársláturtíð
– Heildarstærð húsnæðisins er um 20.000 fermetrar