Beint í efni

Norskir Miðflokksmenn í heimsókn

13.01.2009

Í dag, þriðjudaginn 13. janúar, komu tveir fulltrúar norska Miðflokksins í heimsókn til Bændasamtaka Íslands.  Hér á landi er nú stödd sex manna sendinefnd frá flokknum sem er að kynna sér stöðu mála í kjölfar fjármálakreppunnar og jafnframt til að kynnast viðhorfum gagnvart Evrópusambandinu. Tilgangurinn með heimsókninni til BÍ var að kynna sér hvernig fjármálakreppan kæmi niður á íslenskum bændum og heyra skoðanir samtakanna á hugsanlegri aðild að ESB. 

Nefndarmenn hafa hitt fjölmarga á ferð sinni t.d. forsvarsmenn bankanna þriggja, forsætisráðherra, fulltrúa Háskólans og forystu Framsóknarflokksins sem er systurflokkur miðflokksins. 

Eiríkur Blöndal framkvæmdastjóri BÍ, Erna Bjarnadóttir hagfræðingur samtakanna og Sigurður Eyþórsson framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda tóku á móti þeim fyrir hönd BÍ.  Norski miðflokkurinn er einn þriggja flokka í núverandi ríkisstjórn Noregs.  Flokkurinn er mjög andsnúinn aðild Noregs að ESB og tók virkan þátt í baráttunni gegn aðild þegar kosið var um hana í Noregi síðast 1994.

Á myndinni eru frá vinstri þau Per Olaf Lundteigen, sem er þingmaður, og Synnove Bergerud, ásamt Sigurði, Ernu og Eiríki.