Norskir kúabændur takast á um Guðbrandsdalsostinn
09.10.2010
Guðbrandsdalsosturinn, hinn brúni mysuostur, er líklega eitt þekktasta vörumerki norskra kúbænda enda seldur um allan heim. Nú hefur stjórn Tine, framleiðenda samvinnufélags kúabænda í Noregi, lagt til að framleiðsla á ostinum verði hætt í Guðbrandsdal og færð á staði sem eru hagkvæmari til vinnslu en osturinn er nú þegar framleiddur utan Guðbrandsdalsins sjálfs. Um þessa tillögu eru mjög skiptar skoðanir meðal norskra kúabænda og almennings í Noregi og jafnvel þó svo að sýnt hafi verið fram á sparnað upp á 140 milljónir íslenskra króna á ári við tilfærslu á framleiðslunni eru ekki allir
á því að taka eigi þetta skref. Margir bændur í Guðbrandsdal óttast nefninlega að ef þetta gengur eftir, þá muni arfleifð ostsins hverfa og markaðstækifæri glatast.
Sagan á bak við ostinn
Hinn brúni mysuostur á sér mikla sögu í Noregi en löng hefð er fyrir brúnostagerð þar. Til eru heimildir um brúnostagerð aftur til 17. aldar og vafalaust á brúnostagerð sér lengri sögu enda voru Norðmenn nýtnir og ástæðulaust að nýta ekki mysu frá hefðbundinni ostagerð. Saga Guðbrandsdalsostsins er nokkuð sérstök en tengist órjúfanlegum böndum stúlku nokkurri að nafni Anne Hovs. Anne átti heima á bænum Solbråsetra og 17 ára vildi hún bjóða gestum og gangandi upp á betri ost en mysinginn, sem þá var algengastur á borðum. Henni datt í hug að blanda rjóma út í mysuna við upphitun og þá varð til fyrsta útgáfa af þessum fræga osti. Síðar bætti hún geitamjólk við uppskrift sína og þegar hún flutti síðar á búið Rusthågå fullkláraði hún uppskriftina sína. Árið 1863 var hún ánægð með niðurstöðuna, sem og aðrir Norðmenn, og hóf sölu á Guðbrandsdalsostinum sem enn þann dag í dag er seldur eftir þessari rúmlega 145 ára gömlu uppskrift! Framleiðslan á ostinum tryggði mörgum vinnu í Guðbrandsdal og gerir enn í dag.
Facebook síða
Nú hafa stuðningsmenn ostsins sett upp Facebook síðu til þess að verja framleiðsluna og hafa þegar á þriðja tug þúsunda stutt málstaðinn. Síðuna má sjá með því að smella hér (þarft að vera skráður notandi á Facebook). Stjórn Tine hefur af þessum sökum sent út fréttatilkynningu þess efnis að málið sé bara til skoðunar og endanleg ákvörðun hafi ekki verið tekin.
Framleiðslan í dag
Í dag er brúnosturinn afar vinsæll og eru til margar gerði af honum. Guðbrandsdalsosturinn er þó lang vinsælastur og af 12 milljón kílóa framleiðslu af brúnosti á ári, er annað hvert kíló Guðbrandsdalsostur.