Beint í efni

Norskir kúabændur sáttir eða svartsýnir!

06.05.2011

Tine, norska afurðafélagið, hefur gert könnun meðal félagsmanna sinna með framtíðarsýn þeirra og gefur hún all athyglisverða mynd af stöðunni í norskum landbúnaði. Niðurstaðan sýnir að einungis einn af hverjum fjórum kúabændum sér fyrir sér aukna mjólkurframleiðslu á búi sínu á næstu árum. Þessi staðreynd veldur áhyggjum í mjólkuriðnaðinum enda norsk bú afar smá á alþjóðlegan mælikvarða og söfnunarkostnaður mjólkur gríðarlega mikill vegna langra akstursvegalengda á milli búa með lítið magn mjólkur.

 

Ekki er hægt að túlka niðurstöður könnunarinnar á annan veg en svo að bændurnir séu sáttir við núverandi stöðu eða þvert á móti svo svartsýnir á framtíðina að ekki sé líklegt að bæta megi afkomuna með aukinni framleiðslu. Ráðgjafateymi Tine, en afurðafélagið rekur eigin leiðbeiningaþjónustu fyrir félagsmenn sína, á því mikið verk óunnið nú um stundir við að blása bjartsýni í brjóst umbjóðenda sinna/SS.