Norskir kúabændur sækja fram
13.07.2012
Enn heldur hin mikla barátta áfram meðal stærstu afurðastöðvanna í heiminum og nú hafa Norðmenn slegist í hópinn líka. TINE, stærsta afurðafélagið í Noregi, hefur nú keypt hið bandaríska fyrirtæki Alpine Cheese í þeim tilgangi að efla framleiðslu og sölu á Jarlsberg ostinum fræga á þarlendum markaði.
Fyrirtækið Alpine Cheese hefur síðustu 12 ár framleitt Jarlsberg ostinn samkvæmt norskri fyrirmynd og greitt fyrir það þóknun til norskra kúabænda. Stóraukin eftirspurn eftir ostinum hefur hinsvegar leitt TINE beint inn á markaðinn þar sem innflutningskvóti Norðmanna á Jarlsberg osti til Bandaríkjanna er nú fullnýttur en kvótinn nemur 6.800 tonnum árlega en það magn svarar til um 70 milljón lítra mjólkurframleiðslu.
Nú stefna hinir norsku kúabændur á verulega aukna framleiðslu í Bandaríkjunum og er ætlun þeirra að í framhaldinu hefjist umfangsmeiri sókn á aðra erlenda markaði/SS.