Norskir kúabændur fá einnig vel borgað fyrir nautkálfa
23.06.2010
Eins og fram kom í frétt hér á vefnum fyrir skömmu fá danskir kúabændur vel greitt fyrir nautkálfa sína sem fara á nautastöð. Nú hefur LK borist upplýsingar um greiðslur til norskra kúabænda í sömu stöðu. Geno, sem sér um rekstur norsku sæðingarstöðvarinnar, er með svolítið öðruvísi greiðslukerfi en Vikinggenetics. Í Noregi er hægt að velja um tvennskonar
greiðslufyrirkomulag.
Annarsvegar fær bóndinn greiddar 17.000 Nkr ( um 340.000 Íkr) fyrir nautið þegar það fer á stöð, svo fremi sem það hafi náð 300 kílóa lífþunga. Fari svo að nautið verði tekið til notkunar fær bóndinn 13.000 Nkr (um 260.000 Íkr) eða samtals 30.000 Nkr (um 590.000 Íkr). Verði nautið síðar sk. „eliteokse“ eða nautsfaðir fær bóndinn 100 Nkr (um 2.000 Íkr) af hverju seldu strái, sé það notað á hreinræktaðar kýr. Sæðisskammtur er venjulega seldur á 230 Nkr. Samkvæmt upplýsingum frá Geno eru greiðslur til bænda fyrir sæðissölu úr nautsfeðrum oftast á bilinu 8-10.000 Nkr en mest hafa þó verið greiddar 20.000 Nkr. Í því tilfelli hefur bóndinn þá fengið 50.000 Nkr eða rétt undir einni milljón íslenskra króna.
Hinsvegar getur bóndi valið að eiga áfram nautið. Þá borgar hann Geno fyrir að hafa nautið og greiðir fyrir það 7.500 Nkr (um 150.000 Íkr). Alls kostar prófun nauta og sæðistaka 12.000 Nkr og er þetta form eignarhalds því niðurgreitt af Geno um 4.500 Nkr. Nautið getur nú lent í þremur leiðum:
a. Fær ekki notkun og er sendur í sláturhús. Bóndinn fær sláturverðmætið sjálfur, sem að sögn Geno liggur oftast á bilinu 12-20.000 Nkr (um 240-400.000 Íkr!).
b. Fær meðmæli sem ræktunarnaut en ekki heppilegt til sæðisnotkunar. Nautið er þá selt sem kynbótanaut á uppboði og fær uppboðshaldari 10% sölutekna. Meðalverð kynbótanauta sem seld eru með þessum hætti er um 40.000 Nkr og fær bóndinn þá 36.000 Nkr fyrir nautið (um 710.000 Íkr).
c: Fær hæstu meðmæli og verður notað í ræktunarstarfi Geno. Nú færi bóndinn 13.000 Nkr (um 260.000 Íkr) í bónusgreiðslu frá Geno og eftir að sæðistöku er lokið er nautið selt á uppboði sem kynbótanaut. Eftir greiðslu þóknunar til uppboðshaldara fær nú bóndinn um 42-51.000 Nkr (um 830-1.000.000 Íkr). Ef nautið verður síðar valið sem nautsfaðir fær bóndinn ennfremur 100 Nkr/strá líkt og í fyrra dæminu.