Norskir kúabændur: auka þarf áherslur á rannsóknir og kennslu
08.06.2010
Geno, hagsmunafélag kúabænda í Noregi, hefur sent frá sér greinargerð með hvatningu til norskra yfirvalda í tengslum við endurskoðun landbúnaðarmála fram til ársins 2025. Í greinargerðinni fer Geno yfir stöðu norskrar nautgriparæktar miðað við helstu nautgriparæktarlönd. Þar kemur m.a. fram að
leggja beri áherslu á auknar rannsóknir og fagmenntun í norskum landbúnaði. Telja norskir kúabændur þarlend stjórnvöld ekki nógu metnaðarsöm í þessu sambandi. Nefnir Geno sem dæmi að Evrópusambandið hefur aukið verulega framlög sín í framangreindum málaflokki frá árinu 2007.
Geno telur að leggja eigi áherslur á sókn en ekki vörn í landbúnaðarmálum og að það muni bæði efla landbúnaðinn og draga t.a.m. að yngri bændur.
Samandregnar áherslur Geno eru m.a.:
– Matvælaöryggi í Noregi þarf að tryggja með norskri framleiðslu, bæði með vernd gegn innflutningi landbúnaðarvara og með áherslum í alþjóðasamningum.
– Leita þarf leiða til þess að lækka fjármagnskostnað bænda.
– Auka þarf áherslur á fagmenntun og rannsóknir, með það að markmiði að norskur landbúnaður geti mætt vaxandi kröfum og framleiðsluaukningu á komandi tímum.