Norskir kúabændur á námskeið í boði sveitarfélaganna
23.11.2012
Norsk sveitarfélög standa svo sannarlega við bakið á þarlendum kúabændum og sýndu sex þeirra það í verki fyrir skömmu þegar þau stóðu fyrir námskeiði í beiðslisgreiningu. Sveitarfélögin, sem eru í Romsdal, stóðu að sérstöku átaki sem kallað var frjósemisvikan en með því var kastljósinu eðlilega beint að bættri frjósemi.
Haldin voru nokkur kvöldnámskeið með yfirskriftinni ”Að fá kálf í kú á réttum tíma” og voru námskeiðin kostuð af sveitarfélögunum, sem hluti af sérstöku átaksverkefni að efla kúabúskapinn í Romsdal.
Námskeiðin hófust á kvöldmat og svo var gengið í fræðastörfin þar sem fjallað var um beiðslisgreiningu, tæki og tól sem greina hreyfingar kúa og önnur hjálpartæki ásamt þeim fjölbreytta hugbúnaði sem til er í dag og léttir kúabændum vinnu sína við bæði eftirlit og skráningar. Alls tóku 60 bændur þátt í þessu átaksverkefni sveitarfélaganna.
Þess má geta að næsti fyrirlestur í Veffræðslu LK, þann 26. nóvember nk., verður einmitt um beiðslisgreiningu og tækni en það er Þorsteinn Ólafsson, sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun, sem mun flytja þann fyrirlestur/SS.