Norskir bændur stofna nýtt ostasölufyrirtæki
14.02.2003
Norska mjólkurafurðastöðin Tine, sem er í eigu norskra kúabænda, hefur nú sett stefnuna á ostamarkaðinn með stofnun sérstaks ostasölufyrirtækis. Stofnun hins nýja ostafyrirtækis kom til vegna sameiningar nokkurra norskra afurðastöðva. Þessar afurðastöðvar framleiddu áður ýmsa þekkta norska osta, sem hið nýja fyrirtæki mun nú eingöngu sjá um að selja.
Með þessari aðgerð telja Norðmenn að tryggja megi betur sölu á norskum ostum í samkeppni við innflutta osta, en í því sambandi mun fyrirtækið jafnframt sjá um innflutning á útlenskum ostum. Tilgangurinn með því er að hafa sem besta stjórn á norska ostamarkaðinum. Hugmyndina af þessari tilhögun sölumála var sótt til Frakklands, þar sem sambærilegt fyrirtæki starfar. Rétt er að geta þess að Norðmenn hefðu hæglega getað sótt fyrirmyndina til Íslands, enda verið rekið hérlendis í áratugi fyrirtækið Osta- og smjörsalan sem gegnir ofangreindu hlutverki á Íslandi.