Beint í efni

Norskir bændur söfnuðu 7,7 milljónum króna fyrir bændur á gossvæðinu

03.09.2010

Í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli ákváðu norsku bændasamtökin í samvinnu við ýmis fyritæki í landbúnaði þar í landi að hrinda af stað fjársöfnun fyrir bændur á gossvæðinu. Á fundi NBC, samtaka bænda á Norðurlöndunum, var tilkynnt að safnast hefðu 406 þúsund norskar krónur í söfnuninni sem jafngildir rúmlega 7,7 milljónum íslenskra króna. Það var Nils T. Bjørke, formaður Norges bondelag, sem afhenti Eiríki Blöndal framkvæmdastjóra BÍ og Ernu Bjarnadóttur hagfræðingi samtakanna hina veglegu peningagjöf. Hann sagði við það tilefni að norskir bændur hefðu alltaf átt gott samstarf við stéttarsystkin hér á landi og það hefði því ekki verið erfitt að sameina norska bændur um að láta fé af hendi rakna í söfnunina.

Eiríkur Blöndal hafði orð fyrir íslenskum bændum og sagði við móttöku styrksins að þeir mætu mikils þann hlýhug sem norskir bændur sýndu frændum sínum og þakkaði kærlega fyrir hina rausnarlegu gjöf. Hann sagði jafnframt að styrkurinn hefði þegar komið í góðar þarfir því afleysingaþjónusta á gossvæðinu væri m.a. fjármögnuð með norsku peningagjöfinni.

Norsku fyrirtækin, fyrir utan Norges bondelag, sem lögðu öll 50 þúsund norskar krónur í púkkið voru Norske Felleskjøp, Tine, Nortura, Gjensidige, Landkreditt og Yara. Norskir bændur lögðu til það sem vantaði upp á til að ná upp í hina rausnarlegu gjafaupphæð.