Norskir bændur einnig í mjólkursölu beint
23.07.2015
Við sögðum frá því um daginn að danskir kúabændur mega selja 70 lítra ógerilsneyddrar mjólkur á viku beint úr mjólkurtanki sínum og svo er einnig með norska bændur, þ.e. þeir mega selja mjólkina beint en eru þó ekki bundnir af 70 lítra reglunni. Á móti kemur að þar er nokkur óvissa með hvað má og hvað ekki og hvenær bóndi sé í raun farinn að reka afurðastöð og þurfi því að gerilsneyða mjólkina. Norsku bændasamtökin hafa því óskað eftir úrskurði heilbrigðisráðuneytisins, svo ljóst sé hvaða leið megi fara. Hafa samtökin ígrundað ósk sína með eftirfarandi rökum:
1. Margt hefur breyst á þeim árum sem liðin eru síðan heimildin var veitt norskukm bændum (árið 2008) og hefur eftirspurnin eftir mjólk beint frá býli aukist verulega.
2. Núgildandi reglur heimila bændum að selja beint til neytenda ef viðkomandi „dettur í heimsókn“ og óskar eftir að kaupa mjólk. Hvar mörkin liggja á milli þess að um tilviljunarkennda sölu er að ræða eða skipulagða heimasölu vilja samtökin fá á hreint. Það væri einnig mun betra ef hægt væri að panta mjólk beint og ekki fara í kringum reglurnar með því að þykjast vera að kaupa mjólk fyrir tilviljun beint af bónda.
3. Aukin sala beint frá býli á ómeðhöndlaðri mjólk getur skapað afar mikilvæg tengls á milli kúabús og neytenda, sem svo getur aftur leitt til mun aukinnar sölu með tilheyrandi tekjumöguleikum fyrir kúabóndann.
4. Þar sem það er heimilt að selja osta í búðum, sem unnir eru úr ómeðhöndlaðri mjólk, þá telja bændasamtökin að það hljóti að mega selja ómeðhöndlaða mjólk einnig með skipulögðum hætti beint frá býli/SS.