Beint í efni

Norski McDonalds hamborgarinn bestur í Evrópu!

10.08.2011

Þó svo  að það séu „bara“ 72 McDonalds hamborgarastaðir í Noregi, af 6.900 hamborgarastöðum fyrirtækisins í Evrópu, þá geta norskir neytendur glaðst yfir því. Ástæðan er sú að í keppni innan keðjunnar vann norski hamborgarinn alla aðra borgara í gæðamati sem byggði á bragði, útliti og áferð. Keppnin fór fram á aðalskrifstofu McDonalds í Munchen og kemur niðurstaðan starfsfólki þar ekki á óvart enda norskir hamborgarar verið í hæsta gæðaflokki til margra ára.
 
Frændur geta verið stoltir vegna þessara tíðinda, enda er Noregur smáþjóð að teknu tilliti til nautakjötframleiðslu Evrópu. Þó svo að norska framleiðslan fyrir McDonalds sé lítil á evrópskan mælikvarða er hún harla stór á íslenskan mælikvarða með framleiðslu upp á 25 þúsund hamborgara á klukkutíma! Hamborgararnir eru framleiddir í kjötvinnslu framleiðendasamvinnufélagsins Nortura í Lillehammer.

 

Þess má til fróðleiks geta að McDonalds er afar stór kaupandi á nautakjöti á heimsvísu og sem dæmi um stærð fyrirtækisins þá opnar það nýjan veitingastað á hverjum einasta degi ársins í Kína – svo ekki sé talað um önnur lönd/SS.