Norskar afurðastöðvar slást um Jarlsberg
11.03.2016
Það er heldur betur hlaupin snurða á þráðinn í samstarfi norsku afurðastöðvanna Tine og Synnøve Finden en sú síðarnefnda er tiltölulega lítil afurðastöð, á norskan mælikvarða, í ostaframleiðslu og er með 120 starfsmenn. Synnøve Finden hefur lengi viljað fá heimild til þess að selja ost merktan hinu þekkta nafni Jarslberg, en Tine hefur haft einkaleyfi á því frá árinu 1971. Jarlsberg osturinn er í dag heimsþekktur og eitt af aðalsmerkjum norskra kúabænda.
Forsvarsmenn Synnøve Finden hafa hins vegar haldið því fram að ekki sé um sérstakan ost að ræða, einungis ost sem er áþekkur Cheddar osti eða Gouda og því sé ekki hægt að tengja nafnið við sérstaka ostagerð sem slíka og því geti Tine í raun ekki haft einkaleyfi á nafngiftinni. Um þetta var tekist á um fyrir dómstólinum í Follo og þar var Tine dæmt í vil, en forsvarsmenn Synnøve Finden hafa áfrýjað þeirri niðurstöðu til æðra dómstigs. Það verður fróðlegt að heyra af niðurstöðunni enda hér tekist á um ákveðin grundvallaratriði sem hæglega gætu haft áhrif á fleiri vörumerki, fari svo að dæmt verði Synnøve Finden í vil/SS