Beint í efni

Norsk fjós skulu hafa að lágmarki útigerði

01.08.2012

Frá og með næsta ári verður skylda að vera með útigerði við norsk lausagöngufjós, en hingað til hafa kröfur um útivist gripa ekki náð til kúa í lausagöngufjósum. Í Noregi er krafa um 8 vikna útivist að lágmarki fyrir alla nautgripi nema graðnaut en ekki er gerð krafa um beit. Meginreglan er þó sú að gripir skuli hafa aðgengi að beit en þar sem erfitt er að koma slíku við er nóg að vera með útigerði.
 
Þessi gerði skulu vera með sterku undirlagi sem þó leiðir vatn fljótt í burtu svo kýrnar losni við að ganga í svaði. Þá eru kröfurnar um stærð þessara gerða misjafnar eftir aðstæðum en að lágmarki skal hver kýr hafa 8 fermetra í gerði og upp úr, allt eftir því hve vel undirlagið þolir álagið. Við þessi útigerði er jafnframt gerð krafa um yfirbyggðan „fóðurgang“ sem er amk. með jafn mörg átsvæði og sá sem kýrnar hafa aðgengi að innan fjóssins. Með öðrum orðum skal hinum norsku kúm gefið það val að éta heima eða fara út að éta/SS.