Beint í efni

Norrmejerier gefur Arla ekkert eftir!

09.01.2013

Nú um áramótin lækkaði Arla afurðastöðvaverð mjólkur um 1,3 krónur á lítrann og bar félagið fyrir því erfiðu ástandi á heimsmarkaði mjólkurvara. Fjölmargir bændur í bæði Svíþjóð og Danmörku eru afar ósáttir við þessa ákvörðun, enda eru þeir flestir undir afar miklu álagi og þola illa miklar breytingar á mjólkurverði. Mikill kurr hefur því verið meðal bændanna og væntanlega mun ekki lækka í þeim eftir tíðindi gærdagsins. Þá hækkaði Norrmejerier í Svíþjóð afurðastöðvaverðið um 2 krónur á lítrann og greiðir nú 3 krónum meira á hvern innveginn líter en Arla gerir.

 

Norrmejerier, sem rekur afurðastöðvar í Umeå, Luleå og Burträsk, gaf út við þetta tækifæri að félagið hafi metnað til þess að greiða 3 krónum meira á hvern líter umfram meðalverðið í Svíþjóð! Þess má geta að félagið telst afar lítið á markaðinum, með um 200 milljón lítra innvegna árlega/SS.