Norrænt sæði til Ástralíu
07.11.2015
Norræna kynbótafélagið VikingGenetics hóf sölu á sæði í Ástralíu árið 2011 og hefur náð all góðum árangri þar en í fyrra voru seldir 75 þúsund sæðisskammtar frá félaginu til Ástralíu. Í Ástralíu eru margir bændur með tiltölulega afurðalág bú eða í kringum 7 þúsund lítra að jafnaði, sem þykir nú ekki mikið sé miðað við nútíma kýr, en þar hefur lengi verið lögð áhersla á þætti eins og hreysti, frjósemi og endingu í stað mikilla afurða.
Þarna kemur VikingGenetics sterkt inn, enda hafa slíkar áherslur verið ríkjandi í kynbótastarfi Norðurlandanna nú í áratugi. Fyrir vikið er félagið nú með töluvert sterkt úrval sæðis úr nautum sem hafa framangreinda kosti auk þess að gefa afurðamiklar kýr.
Þessi sérstaða hefur vakið athygli í Ástralíu með fyrrgreindum árangri en markaðurinn þar er þó hvergi nærri mettaður, enda nemur árlega sæðissala 1,8 milljónum skammta og er þorri sæðisins innfluttur. VikingGenetics selur nú árlega um 4 milljónir stráa og flytur út 25% þeirra/SS.