
Norrænir bændur funda í Reykjavík
10.08.2009
Samtök norrænna bænda, NBC, halda aðalfund sinn í Reykjavík í þessari viku. Gestir fundarins eru allir helstu forvígismenn bænda á Norðurlöndunum auk þess sem Roger Johnson, formaður bandarísku bændasamtakanna (NFU), heiðrar samkomuna með nærveru sinni. Fundurinn er haldinn á Hótel Sögu og hefst miðvikudaginn 12. ágúst og lýkur föstudaginn 14. ágúst.
Dagskrá fundarins er að verulegu leyti miðuð við áhrif efnahagskreppunnar í heiminum á bændur og landbúnaðarstefnu. Roger Johnson, formaður National Farmers Union, mun halda erindi á miðvikudeginum en þann dag mun Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra ávarpa fundinn og fjalla um efnahagskreppuna og áhrif hennar hér á landi. Í vinnuhópum verður m.a. rætt um hvernig bændur geti brugðist við þeim erfiðleikum sem kreppan kallar yfir landbúnaðinn.
Á fundinum verður gerð grein fyrir niðurstöðum fundar IFAP (Alþjóðasamtaka búvöruframleiðenda) um loftslagsmál, sem haldinn var í lok maí í Kaupmannahöfn. Einnig verður fjallað um stöðu alþjóðasamninga um viðskipti með búvörur og samstarf ríkja og þróun á mörkuðum með landbúnaðarvörur.
NBC hefur um árabil veitt menningarverðlaun til valins aðila í því landi sem fer með formennsku. Ísland er nú að ljúka tveggja ára formennskutíð en Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, mun veita íslenskum bónda verðlaunin. Síðast þegar verðlaunin voru veitt á Íslandi (á Akureyri 1999) hlaut þau Páll Lýðsson fræðimaður og bóndi í Litlu-Sandvík.
Samtök bænda á Norðurlöndunum hafa um langt árabil átt með sér samstarf á vettvangi NBC, Nordiska Bondeorganisationers Centralråd. Í ár eru liðin 75 ár frá stofnun samtakanna og verður haldið upp á afmælið með viðeigandi hætti í Reykjavík. Í upphafi samanstóð NBC af þremur löndum, Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Síðar bættust Finnar og loks Íslendingar í hópinn. Aðild að samtökunum eiga bæði samtök bænda í hverju landi og samtök samvinnufélaga framleiðenda. Hér á landi hafa Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði tekið þátt í starfinu ásamt Bændasamtökum Íslands.
Fundargestir, sem eru rúmlega 100 talsins, munu ekki einvörðungu sitja við fundarhöld á Hótel Sögu því farið verður í dagsferð í Borgarfjörðinn á slóðir Snorra Sturlusonar og Egils Skallagrímssonar. Þá mun forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, taka á móti hópnum á Bessastöðum.