Norðurlöndin framleiddu 12,3 milljarða kg í fyrra
23.06.2016
Heildarframleiðsla Norðurlandanna árið 2015 fór í 12,3 milljarða kg sem er aukning um 2,0% frá fyrra ári en þetta kemur m.a. í samantekt NMSM (samstarfshópur norrænna afurðastöðva). Afar misjafnt var á milli einstakra landa hvernig framleiðslan þróaðist á árinu. Þannig jókst hún lang mest á Íslandi eða um 9,4% frá fyrra ári, um 3,2% í Danmörku, um 1,8% í Noregi og um 1,6% í Finnlandi. Í Svíþjóð stóð mjólkurframleiðslan hins vegar í stað á milli ára þrátt fyrir að framleiðslan væri frjáls. Þegar horft er til mjólkurmagnsins er sem fyrr dönsk mjólkurframleiðsla í sérflokki með 5,3 milljarða kílóa mjólkur og stendur undir 42,9% allrar framleiðslu Norðurlandanna. Þar á eftir kemur Svíþjóð með 23,9% og Finnland með 19,5%.
Í sömu samantekt kemur fram að þróun síðustu áratuga heldur áfram og hefur kúabúunum fækkað töluvert á Norðurlöndunum. Um áramótin síðustu var heildarfjöldi kúabúanna 24.730 og hafði búunum fækkað á árinu um 1.595 talsins eða um 6,4%. Lang mest fækkun búa varð í Noregi en þar hættu 769 kúabú á árinu eða sem nemur 8,8% starfandi búa. Þar á eftir kom svo Finnland en þar fækkaði búunum um 480 á árinu eða um 6,1%. Minnst hlutfallsleg fækkun varð í Danmörku en þar fækkaði búunum einungis um 119 á árinu eða 3,6%.
Meðalbústærðin á Norðurlöndunum er nú komin í 59 árskýr og jókst bústærðin í öllum löndunum og að jafnaði um 5,6 árskýr. Sem fyrr eru dönsku kúabúin lang stærst og eru að jafnaði með 177 kýr nú og jókst bústærðin að jafnaði um rúmlega 1 árskú í hverjum einasta mánuði síðasta ár í Danmörku. Kúabúin þar eru ekki einungist stærst meðal Norðurlandanna heldur einnig í allri Evrópu ásamt skoskum kúabúum. Nánar má lesa um þróun mjólkurframleiðslu Norðurlandanna í grein í Bændablaðinu sem kemur út í dag (www.bbl.is)/SS.