Beint í efni

Norðmenn taldir éta bæði brjósk og bein!

03.12.2010

Íslendingar eiga met í mörgum „keppnisgreinum“ heimsins þegar kemur að mannskepnunni og metin neysla á kjöti er líklega ein þeirra. Til þessa hafa Norðmenn verið taldir til all mikilla kjötæta en nú hefur komið í ljós að um mikið ofmat á neyslu hefur verið að ræða í Noregi í fjölda mörg ár! Þetta skýrist af því að í Noregi byggja mælingar á áti m.a. á fallþungatölum en ekki ætluðu kjötmagni. Af þessum sökum reiknast „neyslan“ mun hærri en hún er raunverulega.

 

Neyslutölur upp á 77 kg á hvern

Norðmann eru þannig taldar verulega ofmetnar eða sem nemur 10-15 kg. Nina Sundqvist er upplýsingafulltrúi Nortura, stærsta sláturleyfishafans í Noregi: „Þegar Matvælastofnun gefur upp að neysla Norðmanna á kjöti sé 77 kg á hvern íbúa þá reikna þeir greinilega með að maður borði einnig brjósk og bein – fæst okkar gera það“, sagði hún í tilkynningu frá Nortura.

 

En forsvarsmenn sláturleyfishafanna í Noregi eru einnig ósáttir við framsetningu hins opinbera á fleiri þáttum sem snerta kjötneysluna. Þannig taka hinar opinberu tölur ekki tillit til þess að flestir neytendur skeri frá fitu og því mælist neyslan of há vegna þessa. Þá hendir fólk einnig miklu magni af mat núorðið, sem og verslanir. Allt þetta magn er reiknað Norðmönnum til „tekna“ þegar neysla þeirra er reiknuð út. Áhyggjur af of miklu kjötáti í Noregi eru því algerlega óþarfar, að sinni amk.