Norðmenn senda þrjú sæðistökunaut til Englands
27.08.2016
Norska ræktunarfélagið GENO hefur ákveðið að svara kalli markaðarins og bjóða upp á kyngreint sæði úr bestu nautunum. Við höfum oft fjallað um tæknina sem notuð er til kyngreiningar á sæði en sem kunnugt er, er um dýra tækni að ræða og því þarf að flokka mikið magn af sæði svo flokkunin verði hagkvæm.
Það er vel framkvæmanlegt að fljúga fersku sæði á milli landa og var það reynt í fyrstu, þ.e. að fara með sæði frá Noregi til Englands í flokkun, en reyndist allt of dýr aðferð. Nú hafa starfsmenn GENO hins vegar leyst málið með mun einfaldari hætti. Í stað þess að fjárfesta í tækninni eru nautin einfaldlega send á fæti til Englands! Þar verður sæði safnað úr þeim og svo kyngreint og fryst.
Nú í september fara þrjú sæðistökunaut í víking frá Noregi til Englands en um er að ræða nautin Enger, Kvalbein og Maele. Í nóvember er svo vænst þess að geta boðið norskum kúabændum upp á kyngreint sæði úr þessum þremur nautum, en nóvember og desember eru miklir sæðingamánuðir í Noregi og því brýnt að gera þetta núna. Virkilega spennandi leið sem þarna er farin til þess að gera bændum mögulegt að kaupa kyngreint sæði/SS.