Beint í efni

Norðmenn leggja áherslu á geldstöðumeðhöndlun

08.06.2013

Olav Østerås, forstöðumaður heilbrigðis- og dýravelferðardeildar ráðgjafasviðs TINE í Noregi, skrifaði fyrr á árinu áhugaverða grein í tímaritið Buskap (nr. 2/2013) þar sem hann ráðleggur kúabændum landsins að horfa til geldstöðumeðhöndlunar kúa í stað þess að meðhöndla frumuháar kýr á mjaltaskeiðinu og er það sérstaklega horft til smitandi júgurbólgugerla eins og Staf. aureus svo dæmi sé tekið. Þetta er í raun samskonar ráð og hafa verið gefin í Danmörku nú í ein tvö ár, en reynslan þaðan sýnir afar góðan árangur af geldstöðumeðhöndlun og í kjölfarið lægra endursýkingarhlutfall nýbæra.

 

Það skal sérstaklega tekið fram að geldstöðumeðhöndlun getur aldrei og á aldrei að vera eina aðgerð kúabóndans til þess að berjast gegn júgurbólgu og frumuháum kúm enda er fyrirbyggjandi starf það sem mestu skiptir. Þar má nefna sérstaklega atriði eins og að halda kúnum hreinum, halda geldkúnum sér, vera með rúmgott svæði fyrir kýrnar (sér í lagi við fóðurgang um og eftir burð). Þá þarf vart að taka fram mikilvægi góðra vinnubragða við mjaltir og rétt og eðlilegt viðhald mjaltatækja og sótthreinsun spena eftir mjaltir með dýfu eða úða. Við geldstöðu er í dag alltaf ráðlagt að nota spenadýfu með langtímavirkni auk þess sem mælt er með því að byrja að nota spenadýfu á geldu kýrnar á hverjum degi viku fyrir burð/SS.