Nordisk byggetræf á Íslandi
08.09.2015
Á morgun, á Hótel Örk í Hveragerði, hefst norræna ráðstefnan Nordisk byggetræf 2015. Nordisk byggetræf er nafn á ráðstefnu sem haldin er annað hvert ár og er þema hverrar ráðstefnu hönnun fjósa, fjárhúsa og hesthúsa. Þetta er í annað sinn sem ráðstefnan er haldin hér á landi en hún ferðast á milli Norðurlandanna og var síðast haldin hér árið 2005. Líkt og áður mæta á ráðstefnuna allir helstu útihúsa-byggingahönnuðir Norðurlandanna og í ár eru 64 skráðir þátttakendur.
Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðarráðherra, setur ráðstefnuna í fyrramálið en svo hefst í kjölfarið þriggja daga ráðstefna þar sem blandað er saman bæði faglegum erindum og skoðunarferðum og heimsóknum. Á dagskrá ráðstefnunnar eru mörg einkar áhugaverð erindi m.a. um alþjóðleg viðmið varðandi hýsingu á bæði mjólkur- og holdakúm, um hönnun velferðarsvæða fjósa, um djúpa legubása, um hönnun holdakúafjósa og aðstöðu fyrir gripi í kjötframleiðslu, hönnun fjárhúsa í Noregi og á Íslandi, um hönnun hesthúsa og reiðhalla sem og undirlags í reiðhöllum og um uppbyggingu ráðgjafastarfs við útihúsahönnun svo eitthvað sé tekið til.
Eins og áður segir sækja 64 ráðstefnuna sem skiptast þannig á milli Norðurlandanna: frá Íslandi koma 11, frá Danmörku 12, frá Finnlandi 3, frá Noregi 24, frá Svíþjóð 12 og 2 frá Færeyjum 2/SS.