Beint í efni

Nokkur atriði um kvótamarkað

06.09.2010

Eins og flestum er kunnugt, stendur til að taka upp nýtt fyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki í mjólk 1. desember n.k. Stjórn LK hefur þó ítrekað ályktað að nýtt fyrirkomulag taki gildi mun fyrr og eigi síðar en 1. október n.k. Þetta nýja fyrirkomulag byggir á danskri fyrirmynd, en þar í landi hefur kvótamarkaður verið við lýði síðan 1997. Hér má sjá kynningu á honum sem lögð var fyrir fulltrúa á síðasta aðalfundi LK. Kvótamarkaðurinn byggir á reglugerð 430/2010 frá 17. maí sl., sem hefur verið breytt með rg. 455/2010 og 561/2010. Reglugerðir þessar eru settar með stoð í búvörulögum, nr. 99/1993. Helstu atriði sem tilboðsgjafar þurfa að hafa í huga

eru eftirfarandi:

  • Matvælastofnun annast framkvæmd kvótamarkaðar.
  • Markaður skal haldinn 1. desember og 1. júní. 
  • Tilboð þar sem tekið er fram magn og kaup/söluverð skulu hafa borist stofnuninni eigi síðar en 25. nóvember vegna desembermarkaðar og 25. maí vegna júnímarkaðar.
  • Tilboð um kaup og sölu eru bindandi.
  • Helstu gögn: staðfesting á eignarhaldi að lögbýli, samþykki eiganda ef um leiguliða er að ræða, þinglýsingarvottorð og veðleyfi.
  • Kauptilboðum skal fylgja bankaábyrgð.
  • Aðilaskipti að greiðslumarki eftir júnímarkað skulu taka gildi frá 1. janúar á yfirstandandi verðlagsári, aðilaskipti á desembermarkaði skulu taka gildi 1. janúar á næsta verðlagsári á eftir.
  • Einungis verður hægt að selja greiðslumark sem ekki hefur verið framleitt uppí.

Við opnun tilboða, skráir Matvælastofnun magn og verð á hverju tilboði um kaup eða sölu. Við flokkun tilboða um sölu skal byrjað á því tilboði sem lægst verð hefur og tilboðum síðan raðað upp eftir hækkandi verði við hvert innfært tilboð. Við flokkun tilboða um kaup skal byrjað á því tilboði sem hæst verð hefur og tilboðum síðan raðað upp eftir lækkandi verði við hvert innfært tilboð á sama hátt. Jafnvægisverð er það verð sem myndast þar sem framboðið magn er jafnt og eftirspurt magn.

 

Þeir tilboðsgjafar sem bjóða kaupverð sem er jafn hátt eða hærra en jafnvægisverð, fá allir keypt á jafnvægisverði. Þeir tilboðsgjafar sem bjóða lægra kaupverð en jafnvægisverðið fá ekki keypt á viðkomandi markaði. Kaupendur eru því öruggir um að þurfa ekki að kaupa á hærra verði en þeir voru tilbúnir að greiða samkvæmt innsendu tilboði.

 

Þeir tilboðsgjafar sem bjóða söluverð sem er jafn hátt eða lægra en jafnvægisverð, fá allir selt á jafnvægisverði. Þeir tilboðsgjafar sem vilja hærra söluverð en jafnvægisverðið fá ekki selt á viðkomandi markaði. Seljendur hafa tryggingu fyrir því að þurfa ekki að selja á lægra verði en þeir kröfðust samkvæmt því tilboði sem þeir sendu inn.

 

Það er alveg raunhæfur möguleiki að engin viðskipti eigi sér stað á fyrsta markaði, meðan framleiðendur eru að fóta sig í nýju skipulagi. Því kann að verða nauðsynlegt að endurtaka markaðinn fljótt aftur og verður þá að gefa færi á að senda inn ný tilboð.