Beint í efni

NMSM heldur ráðstefnu á Íslandi 13. júní nk.

05.06.2012

Þann 13. júní nk. verður haldin ráðstefna um dýravelferð, mjaltatækni og mjólkurgæði á vegum NMSM, en NMSM er samstarfsvettvangur afurðastöðva í mjólkuriðnaði á Norðurlöndunum. Ráðstefnan, sem er opin öllum, verður haldin í Hótel Glym í Hvalfirði og hefst kl. 8:30 og stendur til kl. 13.

 

Á ráðstefnunni mun Olav Østerås frá Dýralæknaháskólanum í Noregi kynna niðurstöður samnorræna verkefnisins DAHREVA, en verkefnið fjallar um mat á dýravelferð á Norðurlöndunum. Þá mun Erik Rattenborg, landsráðunautur í smitsjúkdómavörnum við Þekkingarsetur landbúnaðarins í Danmörku, fjalla um nautgripasjúkdóma og möguleika kynbótastarfs til þess að velja gegn ákveðnum sjúkdómum.

 

Kaj Nyman (Finnlandi), Odd Rönninen (Noregi) og Mats Gyllenswärd (Svíþjóð) sem allir eru sérfræðingar í mjaltatækni, munu í sínum erindum ræða um samnorræna staðla varðandi mjaltatækni, mælingar á gæðum mjalta og stöðu mjaltaþjóna á Norðurlöndum.

 

Að síðustu verður á ráðstefnunni fjallað um áhugavert samstarfsverkefni DeLaval og Tine í Noregi og DeLaval og Þekkingarseturs landbúnaðarins í Danmörku en bæði þessi verkefni lúta að því að halda líftölu mjólkur í lægstu mörkum. Það eru þau Ingrid Haug (Noregi) og Per Justesen (Danmörku) sem munu kynna þessi samstarfsverkefni.

 

Eins og áður segir er ráðstefnan ókeypis og opin öllu áhugafólki um dýravelferð, mjaltatækni og mjólkurgæði en skrá þarf þátttöku með því að senda tölvupóst til: sns@vfl.dk (ath. danskt netfang en íslenskur viðtakandi)/SS.