Niðurstöður skýrsluhaldsins í Noregi
24.04.2009
Niðurstöður skýrsluhaldsins í Noregi fyrir síðasta ár liggja nú fyrir. Bú í skýrsluhaldi vor 11.794 og árskýr 233.187 talsins. 97,7% kúabúa taka þátt í skýrsluhaldinu. Búum hefur fækkað um 946 milli ára, en mikið af því er vegna sameiningar búa. Kúnum fækkaði um rúmlega 5.500 milli ára. Meðal búið er 19,8 árskýr, það er stækkun um 1,1 árskú milli ára. Rúmlega 40% upplýsinga í skýrsluhaldinu koma beint frá bændum gegnum Netið.
Meðal afurðir voru 6.921 kg á árskú, með 3,39% próteini og 4,19% fitu. Það er aukning um 164 kg milli ára. Mælt í orkuleiðréttri mjólk eru afurðirnar 7.144 kg eftir árskúna. Nýting mjólkur, þ.e. hlutfall innlagðrar mjólkur af heildar framleiðslu, var 92%. Af orkufóðrun kúnna komu 44,4% úr votheyi, 39,8% úr kjarnfóðri, 13,5% af beit, 0,3% úr þurrheyi og 0,2% úr kartöflum/rótarávöxtum. Þróun heilsufars má sjá í töflunni hér að neðan, um er að ræða hlutfall kúa sem meðhöndlaðar eru við hverjum sjúkdómi.
Sjúkdómur | 2003 | 2007 | 2008 |
Júgurbólga | 17,5% | 13,6% | 13,1% |
Súrdoði | 4,1% | 2,3% | 1,8% |
Doði | 3,0% | 3,1% | 3,2% |
Fastar hildir | 2,1% | 2,0% | 2,0% |
Svona upplýsingar hafa verið skráðar í Noregi síðan 1978.