Beint í efni

Niðurstöður skýrsluhaldsins í Danmörku 2012-2013

19.11.2013

Uppgjör skýrsluhaldsins í Danmörku vegna síðasta árs liggur nú fyrir, en skýrsluhaldsárið er frá 1. október til 30. september. Heildarfjöldi kúa í skýrsluhaldi var 512.808, sem er fækkun um 7.497 frá fyrra ári. Síðustu ár hefur kúafjöldinn legið á bilinu 500-520 þúsund, þannig að breytingin í ár er vel innan þeirra marka. Fjöldi búa í skýrsluhaldi var 3.135. Meðalnyt samkvæmt skýrsluhaldinu var 9.138 kg mjólkur, sem er aukning um 119 kg frá fyrra ári. Undanfarin 30 ár hefur meðalnytin aukist að jafnaði um 114 kg á ári. Ef nytin er mæld sem kg verðefna, þá mældist hún að jafnaði 710 kg, 393 kg af fitu og 317 kg af próteini. Það er aukning um 5 kg af hvorum efnaþætti um sig, sem er á pari við fyrri ár.

 

Meðal bústærðin eykst um 7 kýr milli ára og er nú 164 árskýr. Af einstökum kynjum eru bú með Jersey kýr stærst, en meðalstærð þeirra eru 170 árskýr. Stærsta býli landsins hefur 1.390 árskýr. Sem fyrr eru svartskjöldóttu kýrnar, Dansk Holstein, lang flestar eða 363.000 talsins, Jersey kýrnar eru tæplega 68.000 og rauðu kýrnar RDM eru um 35.000, aðrir stofnar eru mun minni. Blendingskúm fjölgar nokkuð milli ára, eru orðnar tæplega 42.000 talsins. Nánari upplýsingar um niðustöður skýrsluhaldsins má sjá með því að smella á hlekkinn hér að neðan./BHB

 

Nokkrar af niðurstöðum skýrsluhaldsins í Danmörku 2012-2013