
Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar 2019 – mjólkurframleiðslan
27.01.2020
Mestu meðalafurðir frá upphafi
Mjólkurframleiðendur sem skiluðu einhverjum, en þó mismiklum, upplýsingum um afurðir kúa sinna á nýliðnu ári voru 556. Smkvæmt þeim skiluðu 25.819,4 árskýr 6.334 kg nyt að meðaltali. Það er afurðaaukning um 59 kg frá árinu 2018 en þá skiluðu 26.207,7 árskýr meðalnyt upp á 6.275 kg. Jafnframt eru þetta mestu meðalafurðir frá upphafi vega og fjórða árið í röð sem þær ná yfir 6.000 kg eftir árskú. Umreiknaðar í orkuleiðrétta mjólk (OLM) eru meðalafurðir síðasta árs 6.586 kg/árskú.
Meðalbústærð reiknaðist 47,6 árskýr á árinu 2019 en sambærileg tala var 47,1 árið á undan. Meðalbústærð reiknuð í skýrslufærðum kúm var nú 62,9 kýr en 2018 reiknuðust þær 63,0. Samtals voru skýrslufærðar kýr ársins 34.979 talsins samanborið við 35.823 árið áður.
Svæðaskipting er nú gjörbreytt og fylgir að segja má kjördæmum. Á árinu voru mestar meðalafurðir á Austurlandi, 6.653 kg, og síðan kemur Norðurland eystra með 6.502 kg. Stærst eru búin að meðaltali á Suðurlandi, 50,2 árskýr, en næststærst eru þau á Austurlandi, 49,9 árskýr.
Innleggjendum fækkar um 13
Meðalbúið stækkaði milli ára í takt við breytingar á innleggi mjólkur og fækkun innleggjenda. Meðalinnlegg á bú með innlegg allt árið nam 277.417 lítrum samanborið við 274.340 lítra á árinu 2018. Meðalinnlegg jókst því um 0,03%. Á sama tíma fækkaði innleggjendum mjólkur um þrettán og voru kúabú í framleiðslu 543 talsins nú um áramótin 2019-2020.
Svana 0753 í Flatey í Hornafirði mjólkaði mest

Nythæsta kýrin á landinu árið 2019 var Svana 1639001-0753 í Flatey á Mýrum í Hornafirði, undan Grána 0608 sem var sonarsonur Lóa 01008. Reyndar er Svana nokkuð skyldleikaræktuð en föðurfaðir og móðurfaðir hennar eru eitt og sama nautið. Svana mjólkaði 14.345 kg með 3,59% fitu og 3,23% próteini. Burðartími hennar féll mjög vel að almanaksárinu en hún bar sínum fimmta kálfi 13. desember 2018 og sínum sjötta kálfi bar hún 15. desember síðastliðinn. Svana fór hæst í 55,7 kg dagsnyt á nýliðnu ári en geldstaða hennar var stutt eða nánast engin og eftir síðasta burð komst hún í 40 kg dagsnyt um áramótin. Svana er fædd á Svanavatni í Austur-Landeyjum í september 2011 en við lok mjólkurframleiðslu þar flutti hún sig um set. Því miður voru ekki haldnar mjólkurskýrslur á Svanavatni á þessum tíma og því eru ekki til gögn um afurðir Svönu á hennar fyrsta mjólkurskeiði. Skráðar æviafurðir hennar, sem ná þá frá öðru mjólkurskeiði til og með byrjunar þess sjötta, voru 49.368 kg um síðustu áramót.
Alls skiluðu 130 kýr afurðum yfir 11.000 kg og þar af 43 yfir 12.000 kg. Árið 2018 náði 91 kýr nyt yfir 11.000 kg og hefur þeim því fjölgað um 43% milli ára.
Tvær kýr rufu 100 tonna múrinn

Á árinu 2019 náðu tvær kýr æviafurðum upp á 100.000 kg mjólkur en það má telja undursamlegan árangur.Víða erlendis eru kýr sem ná 100 tonna æviafurðum heiðraðar og þar er oftar en ekki um að ræða Holstein-kýr sem mjólka mun meira að meðaltali en íslenskar kýr og því ekki hægt að segja annað en að það sé mikið afrek hjá kúm af kyni þar sem meðalafurðir eru ríflega 6.000 kg á ári að ná 100 tonna æviafurðum.
Afrekskýrin Braut 112 á Tjörn á Skaga náði þessum merka áfanga um miðjan mars og var sagt frá því hér á naut.is. Mestum afurðum á einu almanaksári náði hún árið 2011, 10.961 kg, en á árinu 2017 hjó hún nærri því er hún mjólkaði 10.699 kg. Mestum afurðum á einu mjólkurskeiði náði hún á sínu 10. og síðasta, 20.750 kg, enda var það langt en hún bar síðast 7. febrúar 2017. Braut var felld þann 27. júní síðastliðinn sökum elli.
Um mánaðamótin nóvember/desember bættist afrekskýrin Jana 432 á Ölkeldu 2 í Staðarsveit á Snæfellsnesi í hóp þeirra afreksgripa sem rofið hafa 100 tonna múrinn í æviafurðum. Einnig var sagt frá því hér á naut.is. Nú um áramótin hafði hún mjólkað 100.449 kg mjólkur yfir ævina en hún var í 12,0 kg dagsnyt þann 28. desember. Mestu mjólkurskeiðsafurðir hennar eru á yfirstandandi mjólkurskeiði sem er æði langt, spannar orðið tvö ár. Hún er nú komin í 15.694 kg frá síðasta burði.
Núverandi Íslandsmet í æviafurðum á Mókolla 230, dóttir Snarfara 93018, á Kirkjulæk 2 í Fljótshlíð, 114.635 kg.
Gríðarleg vanhöld á kálfum
Í samantekt RML segir ennfremur: „Athygli vekur hversu gríðarlega mikil vanhöld eru á kálfum. Þannig fæðist eða drepst í fæðingu meira en fjórði hver kálfur hjá kúm við 1. burð og nú er svo komið að vanhöld á fyrstu sex mánuðum æviskeiðsins eru 10%. Þar er verið að tala um kálfa sem fæðast lifandi. Fyrir nokkrum árum síðan var nánast óþekkt að kálfar sem á annað borð fæddust lifandi dræpust. Þetta leiðir hugann að því hvort að aðbúnaði og umhirðu sé á einhvern hátt ábótavant þar sem ekki er því að heilsa að sjúkdómar hrjái íslenska kálfa í stórum stíl eins og gerist og gengur víða erlendis. Getur verið að við hönnun nýju, stóru og tæknivæddu fjósanna hafi láðst að huga að ungviðinu sem þarf þá að hírast í kulda og trekki úti í horni?“
Sjá nánar: