Niðurstöður norska skýrsluhaldsins árið 2007
06.05.2008
Fyrir nokkru voru birtar niðurstöður skýrsluhaldsins í Noregi fyrir árið 2007. Þar kemur fram að heilsársbú þar í landi voru á síðasta ári 12.740, sem er fækkun um 864 bú frá árinu áður eða 6,4%. 96,7% mjólkurframleiðenda eru þátttakendur í skýrsluhaldinu og í fylkjunum Vestfold, Telemark og Austur-Agðir eru þátttakan 100%. Á þeim svæðum þar sem þátttakan er minnst er hún um 90%. Meðalbúið í Noregi var á síðasta ári um 18,7 árskýr sem er um helmingi minna en hér á landi. Til samanburðar er meðalbúið í Svíþjóð 54,6 árskýr og 116 árskýr í Danmörku. Stækkunin í Noregi nam á síðasta ári 1 árskú.
Stóran hluta af fækkun búa þar í landi má rekja til þess að búum er í auknum mæli slegið saman í félagsbú, fækkun kúa er 1.814 árskýr sem er 0,8%. Meðalaldur kúnna var 31. desember sl. 47,6 mánuðir sem er 0,3 mánuðum lengra en árið 2006. Afurðaaukning var 171 kg, úr 6.586 kg í 6.757 kg. Afurðaaukningin er mest í Norður-Þrændalögum, 330 kg á árskú. Jákvæð þróun var í efnainnihaldi, fita var 4,21% sem er aukning um 0,05 prósentustig og próteininnihald var 3,38% sem er aukning um 0,03 prósentustig. Nýting mjólkur, þ.e. hlutfall innleggs af framleiðslu, var 93,2%. Norðmenn skrá alla fóðurnotkun og sýnir sú skráning aukningu í fóðurnotkun um 92 FEm, úr 4.928 í 5.020 FEm pr. árskú. Hlutfall kjarnfóðurs af heildarfóðri fór úr 38,5% í 39,4%.
Heimild: Heimasíða Tine Rådgivning og medlem